Sá Kings of Leon og rústir frá seinni heimsstyrjöldinni
Sigrún Guðmundsdóttir, tvítug Njarðvíkurmær er nýlent á klakanum eftir hálfs árs dvöl í Lúxemborg. Hún starfaði sem au-per hjá tveimur íslenskum fjölskyldum, annarri í Lúxemborg en hinni í Þýskalandi þar sem hún var tvo daga í viku. Fyrst fór hún út árið 2007 og var þá í átta mánuði hjá sömu fjölskyldu í þýskalandi. Sigrún skellti sér meðal annars á tónleika með Kings Of Leon og Katy Perry, skoðaði rústir frá seinni heimsstyrjöldinni í Normandí og heimsótti París með hinum au-per stelpunum.
Hvar í Lúxemborg og Þýskalandi varstu? Ég var í Wincheringen í Þýskalandi og í Sandweiler, Lúxemborg.
Hvenær fékkstu þessa hugmynd um að fara? Í lok ársins 2006.
Mælir þú með þessu? Já hiklaust, ég var mjög heppin með fjölskyldur. Þetta er skemmtileg reynsla, maður kynnist fullt af fólki og upplifar öðruvísi menningar.
Efsta mynd: Stelpurnar saman á Kings Of Leon tónleikum
Mynd hér að ofan: Sigrún í Bandaríska kirkjugarðinum
Er planið að fara einhvern tímann aftur út og heimsækja fjölskylduna og vinina? Aldrei að vita þar sem Express flýgur til Lúxemborgar í sumar.
Hvað eru margir í fjölskyldunum sem þú varst hjá? Í Þýskalandi voru foreldrar, ein stelpa og einn strákur. Í Lúxemborg voru foreldrar, tveir strákar og ein stelpa.
Á hvaða aldri voru krakkarnir? Í þýsku fjölskyldunni eru þau fjögurra og fimm ára en í fjölskyldunni í Lúxeborg eru þau eins árs, þriggja og fimm ára.
Sigrún og Elsa Lillý í Þýskalandi
Við hvað starfa foreldrarnir? Ritari, starfsmaður hjá Cargolux, bankastarfsmaður og heimavinnandi.
Hvert var þitt hlutverk? Að hjálpa til við heimilisstörfin og vera með krakkana.
Lýstu hinum týpíska virka degi hjá þér sem au-per: Ég vakna kl. 10 og laga til, hendi kannski í eina þvottavél, skutlast með konunni eða hitti hinar au-pair stelpurnar, sæki svo krakkana í skólann og leikskólann og er með þeim fram að kvöldmat. Síðan geri ég bara það sem mér dettur í hug :)
Fékkstu einhvern tímann heimþrá? Já 2 kannski, en bara þegar það var eitthvað mikið að gerast heima.
Komstu heim í bæði skiptin um jólin? Já, jólin eru eini tíminn sem ég hef ekki þurft að vera úti :)
Hvernig er veðrið þar sem þú varst? Mjög fínt, sérstaklega yfir sumartímann.
Sigrún í Saarbrucken
Fékkstu góð laun? Ég var náttúrulega með frítt húsnæði, bíl til afnota og borgaði ekki bensín sjálf. Svo fékk ég ágætis vasapening í hverri viku.
Myndir þú geta hugsað þér að fá au-per heim til þín? Já ef ég þyrfti á því að halda er það engin spurning.
Hvað er það eftirminnilegasta sem gerðist á dvöl þinni erlendis? Heimsóknirnar þrjár sem ég fékk, Kings Of Leon tónleikar og ferðalögin sem ég fór í standa helst upp úr, en ég er núna búin að sjá einhvern part af öllum löndunum þarna í kring. Ég fór meðal annars keyrandi með þýsku fjölskyldunni til Ítalíu, en það tók um 11 klukkutíma aðra leið. Svo fór ég til Parísar með hinum au-per stelpunum og helgarferð til Normandí þar sem við skoðuðum rústir frá seinni heimsstyrjöldinni og fleira skemmtilegt. Í fyrra skiptið úti, þegar ég var í Lúxemborg þá æfði ég fótbolta og ferðaðist því helling með liðinu, meðal annars til Frakklands og Hollands.
Sigrún ásamt jólasveina vinkonum sínum á Íslandi við heimkomu.
Lærðiru tungumálið? Fyrst þegar ég kom út þá fór ég í dagskóla í 2 mánuði að læra þýsku en svo talaði ég hana ekkert í langan tíma, svo ég er orðin frekar ryðguð en gæti kannski bjargað mér.
Hvað var það fyrsta sem þú gerðir þegar þú komst heim til íslands? Hneykslaðist á vinkonum mínum sem mættu í búningum að taka á móti mér.. haha. En annars bara heim að hitta fjölskylduna :)
Hvað var það, ef ekki er talin fjölskylda og vinir, sem þú saknaðir mest við ísland? Snotra!! (hundurinn minn) og maturinn.
Á hvað stefnir þú í framtíðinni? Ég ætla að verða leikskólakennari.
Útsýnið í París
VF/HBP - Myndir úr einkasafni.