Rúna Hans sýnir í Bling Bling
Sigrún Hansdóttir opnaði í gær myndlistarsýningu í Bling Bling við Hafnargötu. Sýninguna kallar hún Ísland og Jökulinn þar sem hinn kynngimagnaði Snæfellsnesjökull er viðfangsefni listakonunnar, bæði í akrýl og vatnslitamyndum.
Sigrún, eða Rúna Hans, eins og hún er kölluð, er fædd og uppalin á Ólafsvík en er nú búsett í Reykjanesbæ. Hún hefur sótt sér þekkingu og tækni á fjölda námskeiða hjá hinum ýmsu listamönnum hér heima og erlendis, auk þess sem hún lærði listasögu og lita- og formfræði í Iðnskólanum.
Þetta er fimmta einskasýning Rúnu en einnig hefur hún tekið þátt í nokkrum samsýningum. Myndir Rúnu eru einkar athyglisverðar og einkennast margar hverjar af kyrrð og dulúð sem skilar sér vel til áhorfandans.