Rosaleg Rokkveisla um helgina
Einn af föstum viðburðum Ljósanætur undanfarinn áratug hafa verið tónleikar undir heitinu „Blik í auga“. Í upphafi skipuðu heimamenn flestar stöður en síðan hefur verkefnið þróast og undanfarin ár hafa margir af helstu hljóðfæraleikurum og söngvurum landsins einnig tekið þátt í uppfærslunum. Í ár var þar engin undantekning á.
Eins og allir vita varð ekkert af Ljósanótt þetta árið vegna Covid19 heimsfaraldursins en „Blik í auga“ lét það ekki slá sig út af laginu heldur frestaði tónleikunum þar til færi gafst. Það gerðist í kvöld þegar fyrstu tónleikar af þremur fóru fram í Stapa, Hljómahöll undir heitinu „Rokkveislan mikla“. Á morgun, laugardaginn 26. sep., verða svo tvær sýningar kl. 16:00 og 20:00 og vil ég hvetja alla sem una góðri og kraftmikilli rokktónlist til að láta þessa tónleika ekki fram hjá sér fara.
Hljómsveitin undir stjórn Arnórs Vilbergssonar var þétt og kraftmikil. Gítarleikararnir Einar Þór Jóhannsson og Davíð Sigurgeirsson áttu magnaðan leik og sóló; bæði einir og saman. Aðrir hljóðfæraleikarar og bakraddasöngkonurnar Sólborg og Sigríður Guðbrandsdætur skiluðu sínu með miklum sóma.
Í aðalhlutverkum voru þó söngvararnir Stefanía Svavarsdóttir, Stefán Jakobsson, Matti Matt og Dagur Sigurðsson sem fluttu mörg af helstu meistaraverkum rokksögunnar og upphaflega voru flutt af Bítlunum, AC/DC, Queen, Rolling Stones, Deep Purple, Guns N´Roses og auðvitað Led Zepplin svo dæmi séu tekin. Á stóru tjaldi birtust videómyndir sem settu mikinn svip á sviðsmyndina og sköpuðu viðeigandi stemningu hverju sinni. Kristján Jóhannsson límdi svo dagskrána saman með bráðskemmtilegum sögum eins og honum einum er lagið.
Um leið og ég óska aðstandendum Bliks í auga innilega til hamingju með frábæra tónleika vil ég hvetja fólk til að láta þá ekki fram hjá sér fara.
Kjartan Már Kjartansson