Rokkbúðir fyrir stelpur í Reykjanesbæ
Markmiðið að leiðrétta kynjahallann í íslensku tónlistarlífi.
Í sumar verður í fyrsta skipti boðið upp á rokkbúðir fyrir 12 til 16 ára stelpur í Reykjanesbæ á Ásbrú fyrir stelpur sem búa á Suðurnesjum. Þær verða 9. til 12. júlí.
Fjórða starfssumar sjálfboðaliðasamtökanna Stelpur rokka! er nú hafið og nýjar rokkbúðir verða á dagskrá í sumar. Stelpur rokka! munu bjóða upp á fernar rokkbúðir í sumar í Reykjavík og í Reykjanesbæ.
Í rokkbúðunum læra stelpur á hljóðfæri, þær spila í hljómsveit og semja lag. Þær taka þátt í vinnusmiðjum, vinna náið með sjálfboðaliðum, fá tónleikaheimsóknir frá virtum tónlistarkonum og flytja lag á lokatónleikum fyrir framan fullan sal fjölskyldu og vina.
Rokksumarbúðirnar starfa ekki í hagnaðarskyni og þær eru skipulagðar og framkvæmdar af kvenkyns sjálfboðaliðum sem einnig eru farsælar íslenskar tónlistarkonur. Markmið samtakanna er að leiðrétta kynjahalla í íslensku tónlistarlífi og verða að leiðandi afli í jafnréttismiðuðu tónlistarstarfi á Íslandi.
Stelpur rokka! taka einnig virkan þátt í öflugu alþjóðastarfi en fulltrúar frá Stelpur rokka! sóttu nýverið ráðstefnu regnhlífasamtaka rokkbúða í Philadelphia í Bandaríkjunum.
Skráning hefst sunnudaginn 10. maí í allar rokkbúðirnar á heimasíðunni stelpurrokka.org. Engri stúlku verður vísað frá sökum fjárskorts. Niðurgreidd og frí pláss eru í boði.
Allar upplýsingar um sumarstarfið má finna á heimasíðunni, á Facebook og Tumblr. Vinsamlega hafið samband við Áslaugu Einarsdóttur framkvæmdastýru í síma 6965438 fyrir nánari upplýsingar.