Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Rokkaður Wagner í Hljómahöll
Laugardagur 3. júní 2017 kl. 06:00

Rokkaður Wagner í Hljómahöll

Boðið var upp á einstaka rokkóperu í Hljómahöll í samstarfi Tilraunaóperu Íslands og Norðuróps þar sem fluttir voru valdir kaflar úr hinni mögnuðu óperu Wagners „Hollendingurinn fljúgandi“. Þar fór fremstur í flokki Jóhann Smári Sævarsson söngvari og stjórnandi og naut hann aðstoðar sonarins Sævars Helga Jóhannssonar sem stjórnaði tónlistarflutningi sveitarinnar Sígull, auk þess sem hann lék á píanó. Söngvarar voru auk Jóhanns, Bylgja Dís Gunnarsdóttir og Egill Árni Pálsson en kórsöngur var í höndum félaga í Kvennakór Suðurnesja, söngsveitinni Víkingum og Karlakórs Keflavíkur.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jóhann Smári segir að hugmyndin hafi kviknað þegar hann og Bylgja Dís ræddu hugmyndir að öðruvísi óperu og datt þeim þá Wagner í hug. Þar sem Wagner hefur oft verið kallaður rokkari óperunnar kviknaði sú hugmynd að gera í raun ábreiðu af þessari óperu hans og bæta við dass af rokki.

Segja má að Hollendingurinn fljúgandi sé góð ópera fyrir byrjendur enda stysta ópera Wagner og í léttari kantinum. Verkið er öðrum þræði saga af sjómönnum, eins og heyra má í tónlistinni sem víða endurómar villta storma og löðrandi brim og er hins vegar hálfgildis draugasaga og á því vel heima í íslenskum veruleika.

 

Það var heldur óvenjulegt að sjá rokkhljómsveit með nótnablöð á sviðinu og klassískan stjórnanda en þessi uppsetning skapar kjörið tækifæri til þess að kynnast ævintýraheimi óperunnar, svolítið öðruvísi.

Spilagleði Sígull var smitandi og söguþráður óperunnar spennandi enda draugasaga af bestu gerð. Textinn var reyndar á þýsku en söngvarar tóku að sér að útskýra söguþráðinn. Kórarnir voru lagrænir og hressilegir og naut karlakórinn sín vel en þó vantaði nokkuð upp á félaga í Kvennakór Suðurnesja. Söngvarar skiluðu sínu vel og voru afslappaðir í þessu óvenjulega formi.
 

Það er virðingarvert þegar listamenn þora að fara út fyrir kassann og óska ég Jóhanni Smára og félögum til hamingju með þetta framtak og vona að verði framhald á.

Dagný Maggýjar.