Ritstjórar National Geographic hrifnir af grindvískum rollum
Svo virðist sem grindvískar rollur hrífi ritstjóra hins fræga tímarits National Geographic. Á þriðjudaginn birti tímaritið mynd sem Ellert Grétarsson ljósmyndari tók á dögunum við Stað í Grindavík af nokkrum fögrum rollum með vindskafin ský í bakgrunni. Myndin var valin í The Daily Dozen á vef National Geographic þar sem ritstjórarnir velja 12 úrvalsmyndir dag hvern.
Þrátt fyrir allar þær þúsundir mynda sem þeir hafa úr að velja virðast grindvískar rollur alltaf hrífa ritstjórana því síðasta haust birtu þeir mynd, einnig frá Ellerti Grétarssyni, úr réttunum í Grindavík í þessum sama myndaþætti. Ellert segist hafa sent tímaritinu þó nokkrar myndir sem ekki hafa komist inn en grindvísku rollurnar klikka ekki!
Að ofan: Heimasíða National Geographic síðasta þriðjudag.
Að ofan: Heimasíða National Geographic frá því í haust.