Risadagur í 88 húsinu um helgina
Sannkallaður risadagur verður í 88 húsinu nk. laugardag þar sem fjölmargir úrvalsviðburðir verða á dagskrá en þar á meðal má nefna brettamót, fatasýningu, ljósmyndasýningar, málverkasýningar, videoverk, graffitisögu, digital art, graffiti-keppni og tónleika.
Dagskráin hefst klukkan 12 með upphitun fyrir brettamótið sem hefst klukkan 14:00 og er áætlað að verðlaunaafhending fari fram klukkan 15:30 en veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin þar á meðal glænýr GSM sími, töskur, hjólabretti, plötur, longboard, föt, öxlar, límmiðar, legur, dekk, bíómiðar, sandpappír,og margt fleira. Klukkan 16:00 eru svo formlegar opnanir á listasýningum hjá Þorbirni, Guðbjörgu og Davíð Eldi. Klukkan 17:00 hefst graffitikeppnin en búist er við jafnri og spennandi keppni eins og í fyrra.
Tónleikar hefjast síðan um 18:00 en fjölmargir listamenn koma fram á þeim þar á meðal Kíló, S. Cro, Spaceman, MC Gauti, Kiddi Kjaftur, Stebbi HD, Cheeze, Basic-B, El Forte og margir fleiri. Verðlaunaafhending fyrir grafitikeppnina fer síðan fram klukkan 21:00 en glæsilegir vinningar eru í boði fyrir þrjú bestu verkin þar á meðal glænýr GSM sími, gjafabréf í Exodus fyrir 20 þúsund krónur, tappar, límmiðar, skissubækur, pennar, bíómiðar og margt fleira. Við ljúkum síðan kvöldinu um ellefu leytið með enn meiri tónlist í nýju og skemmtilegu umhverfi í svartholinu. Athygli er vakin á því að þetta er vímuefnalaus skemmtun og ber að virða það.
Allir eru boðnir velkomnir á risadaga í 88 húsinu og Svartholinu á laugardaginn en þess má geta að boðið verður upp á léttar veitingar fyrir gesti og hoppukastali verður á staðnum fyrir börnin. Helstu styrkaraðilar viðburðarins eru Reykjanesbær, 88 húsið, BRIM, Tjaldaleigan Skemmtilegt, Gallery Keflavík, Dream Catcher Clothing og smash.
Af www.88.is