Rifja upp herstöðina í bakgarðinum
Sýningin „Varnarlið í verstöð“ verður opnuð í Duus Safnahúsum á föstudaginn en Byggðasafn Reykjanesbæjar stendur að baki sýningarinnar. Helgi Valdimar Viðarsson Biering stýrir söfnun varnarliðsmuna hjá Byggðarsafninu en til sýnis verða ýmsir munir frá tímum Varnarliðsins á Íslandi, þar á meðal braggi og herjeppi, sem hvort tveggja gjörbreytti miklu í íslensku samfélagi.
Helgi í bragganum sem sýndur verður í Duus.
„Hvernig var fyrir íbúa í þessu litla sjávarþorpi, sem Keflavík var þá, að fá þessa stóru herstöð í bakgarðinn hjá sér? Þetta hefur verið gjörbylting. Ég kem til með að segja frá BA-ritgerðinni minni og við ætlum að bjóða fólki að koma og segja sögur frá þessum tíma. Sýningin kemur til með að standa fram yfir Ljósanótt. Það er virkilega gaman og spennandi að rifja þetta upp. Fyrir grúskara eins og mig þá er maður svolítið að rífa upp gamlar torfur,” segir Helgi.
Sýningin er fyrir alla þá sem áhuga hafa á samskiptum fólks, sögu og hernum. „Ég held að flestir geti fundið hér eitthvað sem höfðar til þeirra.“