Ólafur Gunnar Sæmundsson, næringarfræðingur, er fæddur og uppalinn í Garðinum. Á síðasta ári gaf hann út bókina Lífsþróttur, næringarfræði fróðleiksfúsra. Bókin er ein tíu bóka sem tilnefndar voru til verðlauna Hagþenkis árið 2015. Viðurkenningin er veitt fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings.
Indælt að alast upp í Garði
Ólafur fæddist í Lyngholti í Garði í september 1961 og er elsta barn hjónanna Soffíu G. Ólafsdóttur og Sæmundar Kr. Klemenssonar. Þremur árum síðar voru þeir bræðurnir orðnir þrír og árið 1970 bættist svo systir í hópinn. Fram til ársins 1968 bjó fjölskyldan í Lyngholti og þá í sambýli með móðurforeldrum Ólafs. Þá flutti kjarnafjölskyldan að Skólabraut 12 þar sem Ólafur bjó allt þar til hann hélt til Bandaríkjanna í háskólanám árið 1984. Ólafur segir það hafa verið indælt að alast upp í Garðinum í skjóli fjölskyldu, kunningja og góðra vina. „Þar var margt brallað eins og gengur. Úr Garðinum á ég margar góðar minningar sem tengjast ferðum upp í heiði í eggjaleit, veiði niðri á bryggju, brennusöfnun, Gerðaskóla, vinnu í ýmsum fiskverkunarhúsum og leikhússtarfi svo fátt eitt sér nefnt,“ segir hann.
Þegar Ólafur kom heim úr námi í Bandaríkjunum árið 1989 fékk hann inni hjá ömmu sinni og afa í Garði og bjó þar í um tvö ár áður en hann flutti til Reykjavíkur enda kominn þar með vinnu sem tengdist náminu og það á tveimur stöðum, á Landspítalanum, þar sem hann vann á Göngudeild sykursjúkra hálfan daginn og síðan á endurhæfinga- og forvarnarstöðinni Mætti hf. Á þessum tíma kynntist Ólafur konu sinni og árið 1994 fluttu þau á Seltjarnarnes og búa þar enn ásamt þremur börnum.
Næringarfræðin snýst um fjölbreytni
Í dag kennir Ólafur næringarfræði við Háskóla Reykjavíkur og sér um næringarráðgjöf hjá Skólamat ehf. Ólafur segir næringarfræðina ekki snúast um boð og bönn heldur fjölbreytni og ákveðna hófsemi. Hann segir einnig að hafa megi í huga að orku- og næringarþörf fólks geti verið misjöfn og að neysla sem henti einum þurfi ekki endilega að henta öðrum. Þetta eigi ekki síst við í ljósi umræðunnar sem er oft einsleit. „Umfjöllun einskorðast allt of oft við svokallað megrunarfæði og öfgakenndan heilsufæðisboðskap þar sem fólk fær þau skilaboð að mest af því sem það er vant að borða sé óhollt og jafnvel stórskaðlegt,“ segir hann.
Ólafur segir mataræði Íslendinga hafa batnað nokkuð undanfarin ár. „Við höfum til dæmis aukið neyslu á ávöxtum, grænmeti og grófkornmeti, þó þar megi enn gera betur. Við höfum einnig dregið úr drykkju sykraðra gosdrykkja en þess í stað aukið vatnsdrykkju og neysla mettaðrar fitu og transfitu hefur minnkað.“ Ólafur segir að þrátt fyrir að margt hafi færst til betri vegar sé ljóst að margir mættu bæta mataræði sitt. „Sem dæmi má nefna að margir borða því miður meira en þörfin segir til um á meðan aðrir borða minna en þörf er á. Ástæður þessa geta verið margar og oft er um flókið samspil að ræða sem tengist umhverfi, erfðum og samfélagslegum þáttum,“ segir hann.
Reynslusögur ekki góður mælikvarði
Aðspurður um hvert eigi að sækja eftir áreiðanlegum upplýsingum um hollustu segir Ólafur nærtækast að benda á vefsíðu Embættis landlæknis þar sem hægt sé að nálgast margs konar fræðsluefni sem tengist næringu og næringarfræði. „Fólk skyldi alltaf hafa varann á þegar til dæmis er fullyrt að einhver efni búi yfir undraverðum heilsufarslegum lækningamætti og þær fullyrðingar jafnvel bakkaðar upp með svokölluðum reynslusögum. Það að notast við reynslusögur sem sönnun fyrir virkni efnis á ákveðin heilsufarsvandamál er með öllu ómarktækt og flokkast undir gervivísindi og kukl!“
Útgáfan á bókinni Lífsþrótti á síðasta ári var sú þriðja en bókin kom einnig út árin 1999 og 2007 og hefur tekið miklum breytingum með hverri útgáfu. Ólafur segir bókina alfræðibók um hina fjölbreyttustu kima næringarfræðinnar en ekki um neinar töfraleiðir til megrunar. Í bókinni er fjallað um viss grunnatriði næringarfræðinnar, eins og hlutfall orkuefna, orkugildi, orkuþörf og ráðlagða dagskammta, átraskanir, íþróttir og næringu og margt fleira. Þá eru einnig teknar fyrir ýmsar mýtur varðandi mataræði. Til dæmis sú að brauð sé fitandi, kókosolía sé ofurfæða og að magnesíum og sítrónur séu allra meina bót.