Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Reyni að halda geðinu með súkkulaði
Sibba kann vel við sig í eldhúsinu.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 26. apríl 2020 kl. 18:19

Reyni að halda geðinu með súkkulaði

Sigurveig Guðmundsdóttir segir að margt gott eigi eftir að koma út eftir veirutíma, til dæmis að við verðum mun meira skapandi. Sibba er flugfreyja hjá þýska flugfélaginu Lufthansa og býr í Þýskalandi en á einnig íbúð á Íslandi. Er fædd og uppalin í Garðinum. Hún var í góðum gír þegar hún snaraði svörum á blað frá Víkurfréttum.

– Hvernig hefur COVID-19 haft áhrif á þig?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Vinnan mín er svo til alveg lögst af og ég hef fitnað, ekki spurning.

– Hvernig hefur þú brugðist við?

Ég reyni að halda geðinu með súkkulaði og keypti mér nýjar joggingbuxur.

– Hvernig hafa Þjóðverjar tekið á málinu?

Misjafnt eftir sambandsríkjum, hér í Hessen hefur verið samkomubann, allir skólar lokaðir, leikskólar lokaðir, allar verslanir fyrir utan apótek, stórmarkaði og byggingarmarkaði – og strangar reglur um fjölda inni í verslunum.

– Hvernig leggst framhaldið í þig og hvernig sérðu það fyrir þér?

Ég sé framhaldið fyrir mér í iðnaðarríkjunum að neysla okkar, í hvaða formi sem er, mun breytast allverulega sem er kannski ekkert svo slæmt. Við vorum nefnilega komin í svakalega neyslu. Ég sé fyrir mér að við verðum meira skapandi og munum ekki taka öllu sem sjálfsögðum hlut sem er bara gott.

– Hvaða aðferðir ertu að nýta til að eiga í samskiptum við fólk?

Ég „FaceTime“-ast og á Corona Buddies, fer í gönguferðir þar sem við höldum okkur í tveggja metra fjarlægð. Já og hringjumst á.

– Hefðbundin símtöl eða myndsímtöl?

Bæði hefðbundin símtöl og FaceTime ef kollan er komin í stand.

– Ef þú fengir bara að hringja eitt símtal í dag, hver fengi það símtal og hvers vegna?

Til móður minnar. Æ, mömmur hljóta að vera áhyggjufullar á svona tímum.

– Hvernig ertu að upplifa nýjustu tíðindi um að það muni jafnvel taka margar vikur inn í sumarið að aflétta hömlum vegna COVID-19?

Það finnst mér svolítið erfitt, það þýðir að ég kemst ekkert á klakann á næstunni og ég fæ alltaf heimþrá annað slagið.

– Hvaða lærdóm getum við dregið af heimsfaraldrinum?

Að taka ekki öllu sem sjálfsögðum hlut og að við getum framleitt meira í okkar eigin umhverfi. Hætta að kaupa og henda, bara af því það var ódýrt. Vonandi hættum við neyslunni sem hefur  verið viðloðandi alltof lengi og verðum öll manneskjulegri og hugsum betur um þá sem minna mega sín, hvort sem það er fólk í næsta húsi eða í vanþróuðum löndum þar sem skelfileg fátækt er og hungur er daglegt brauð. Við getum öll gert betur í þeim efnum, margt smátt gerir eitt stórt.

– Ertu dugleg í eldhúsinu?

Ohh já, hvort ég er. Ég elska að vera í eldhúsinu.

– Hvað finnst þér virkilega gott að borða?

Núna t.d. aspas, núna er aspastími hér í Þýskalandi. Ýmist grillaðan, smjörsteiktan í potti og svo parmesan ofan á þegar hann er tilbúinn. Æ, nú er hætta á að ég sendi heila matreiðslubók til ykkar. 

– Hvað finnst þér skemmtilegast að elda?

Ferskan fisk ... allra best.

– Hvað var bakað síðast á þínu heimili?

Uppáhalds, sikileyska sítrónu-Ricotta-tertu.

– Ef þú fengir 2000 krónur. Hvað myndir þú kaupa í matinn?

Grænan og hvítan, ferskan aspas, smá smjör og sítrónu.

– Hvað hefur gott gerst í vikunni? 

Ég hef hitt nokkra vini og átt gott spjall.

– Hvað hefur slæmt gerst í vikunni?

Hjá mér hefur ekkert slæmt gerst en ég veit að margir eru að berjast við mikla óvissu með tilheyrandi hörmungum, atvinnuleysi, engan varasjóð, heimilisofbeldi og allskyns ömurlegheit.

Hvaða spurningu hefðir þú viljað fá að svara í þessu viðtali?
Hver er spurningin og svarið við henni?

– Eftir eitt ár, hvar og í hvaða stöðu sérðu þig?

Úff ... ef ég vissi það en núna er ég í sannfærð að þegar einar dyr lokast opnast aðrar eða fleiri og þá er maður vonandi svo snjall að velja eina af réttu hurðunum. Svo eins og þeir segja hérna í Frankfurt: „Ice nehme doch noch ein Eierlikörchen, das Leben muss irgendwie weiter gehen,“ eða: „Það er best að fá sér eggjalíkjör, lífið verður einhvern veginn að halda áfram.“

Sigurveig, Sibba með systrum sínum Ásu og Margréti.

HÉR AÐ NEÐAN MÁ SVO LESA ALLT NÝJASTA TÖLUBLAÐ VÍKURFRÉTTA.