Reyni að eyða eins litlum tíma í garðinn og ég get
Guðmundur Stefán Gunnarsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi Sveitarfélagsins Voga, stefnir á að byrja í golfi þegar hann verður gamall en hans aðaláhugamál er glíma. Guðmundur svaraði nokkrum laufléttum sumarspurningum Víkurfrétta.
Hvernig á að verja sumarfríinu? Ég ætla að vera heima og ditta að húsinu og njóta með fjölskyldunni og vinum.
Hver er uppáhaldsstaðurinn á Íslandi og af hverju? Uppáhaldsstaðurinn á Íslandi er gilið í Öskjuhlíðinni (ævintýri í miðborginni).
Hvaða stað langar þig mest á sem þú hefur ekki komið á? Draumastaðurinn sem ég hef ekki komið á er Rauðisandur.
Er einhver sérstakur matur í meira uppáhaldi á sumrin? Grillaðar Bónuspulsur eru í miklu uppáhaldi á sumrin.
Hvað með drykki? Ég elska mjólk og ef hún er blönduð með kakómalti er hún enn betri.
Hvað með garðinn, þarf að fara í hann? Ég reyni að eyða eins litlum tíma í garðinn og ég get en reyni að eyða þeim mun meiri tíma í glímuna sem er áhugamál númer eitt. Ég stefni svo á að byrja í golfi þegar ég verð gamall.
Veiði, golf eða göngur? Glíma.
Tónleikar í sumar? Ég ætla klárlega á fjölskyldudaga Voga með fjölskylduna því að dagskráin í ár er sturluð og ekki er verra að allir viðburðir og skemmtiatriði eru ókeypis, sem hentar sex manna fjölskyldu eins og minni mjög vel.
Áttu gæludýr? Gæludýrið á heimilinu er hundur ef hund má kalla. Hann er af Pug-kyni og heitir Þorlákur, kallaður Láki. Hann smellpassar inn í hópinn enda með afbrigðum þrjóskur en líka kelinn og kærleiksríkur.
Þarftu að slá blettinn eða mála húsið/íbúðina? Slá blettinn.
Hver er uppáhaldslyktin þín (og af hverju)? Uppáhaldslyktin mín er af nýþvegnum útiþurrkuðum rúmfötum.
Hvert myndir þú segja útlenskum ferðamanni að fara/gera á Suðurnesjum? Ef að ég ætti að benda útlendingum á skemmtilega hluti hér á Reykjanesi væri af nógu að taka, brúin á milli heimsálfa, Brimketill, kríuvarpið við Norðurkot og kríuvarpið við Minna-Knarrarnes, fuglalífið á Fitjum, Víkingasafnið svo mætti lengi telja.
Ertu búinn eða ætlarðu að kíkja á eldgosið við Litla-Hrút? Ég hef ekki ætlað mér að skoða gosið en hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér?