Reyndi að senda Jesú á altaristöflunni hugboð
Elíza Newman fermdist í Keflavíkurkirkju árið 1989. Hún fékk fullt af bókum í fermingargjöf, sem hún var misánægð með. Samheitaorðabókina hefur hún hins vegar notað mikið
Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú rifjar upp ferminguna?
Roast beef og vandræðagangur!
Af hverju léstu ferma þig?
Mig langaði að komast í fullorðinna manna tölu eins og það var kallað og ég vildi fá gjafir hugsa ég ef ég á að vera hreinskilin. Á þessum tíma var ekki mikið svigrúm fyrir því að ferma sig ekki, það var ekki algengt.
Hvernig var fermingarundirbúningurinn, presturinn og kirkjan?
Ég man að ég var send í hárgreiðslu og myndatöku sem mér fannst vandræðalegt eins og allt í lífinu þá en ég fékk að lita hárið mitt sem gladdi mig og fara í Reykjavík að kaupa kjól sem var mjög spennandi. Mér fannst fyndið að vera í hvítum kufli á fermingadaginn og ég var með stóran kross um hálsinn út af því það var töff (fannst mér). Presturinn var fínn en minningin sem kemur upp um kirkjunni á fermingardaginn er sú að ég var að horfa á altaristöfluna á Jesú og að reyna að senda honum hugboð um það að ég væri í alvörunni að reyna mjög mikið að leggja mig fram og trúa þessu öllu en ég væri ekki alveg viss og hvort hann myndi ekki örugglega fyrirgefa mér ef hann væri til og ég hefði rangt fyrir mér!
Var haldin veisla og hvað er eftirminnilegast úr henni?
Það var mjög fín veisla heima á Faxabrautinni stýrt af mömmu og ömmu. Svo man ég eftir að það var roastbeef í matinn í veislunni sem ég var rosa ánægð með. Mér fannst svaka vanræðalegt að þurfa að heilsa öllum með handabandi og ég man að það voru svaka uppstillingar fyrir myndatökur sem var stýrt af Ömmu Stellu. Í minningunni var þetta góður dagur í faðmi fjölskyldunar og mér fannst ég verða aðeins meira fullorðin eftir hann.
Eru einhverjar fermingargjafir sem þú manst eftir?
Já ég fékk rosa mikið af bókum, orðabækur, samheitaorðabók, Íslendingasögur og ljóðabækur sem ég var ekkert sérstaklega ánægð með, en þær komu sér svo mjög vel í námi seinna meir og ég get sagt að samheitaorðabókinn var mjög mikið notuð! Ég fékk líka ferð til Oxford í Englandi í enskuskóla það sumarið frá foreldrum mínum sem var algjörlega frábær gjöf, opnaði huga minn fyrir stóra heiminum og var byrjunin á ástarævintýri mínu við England og allt því tengdu.
Ertu að fara í einhverjar fermingarveislur?
Ekki í ár nei en ég bíð spennt eftir næstu!