Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Reykjanesskagi -náttúruundur á heimsvísu
Mánudagur 26. desember 2011 kl. 15:56

Reykjanesskagi -náttúruundur á heimsvísu

„Vorið 2006 fór ég að stunda gönguferðir um Reykjanesskagann með myndavél í hönd. Fram að því hafði ég haft þá sýn á skagann sem flestir þekkja út um hliðargluggann á akstri eftir Reykjanesbrautinni. Frá því sjónarhorni virðist landslagið ákaflega tilbreytingasnautt og lítið að sjá annað en endalausar hraunbreiður og lág móbergsfjöll. Ég átti svo sannarlega eftir að komast að raun um annað enda er það svo að maður fær allt aðra sýn á landið þegar maður skoðar það fótgangandi,“ segir Ellert Grétarsson, leiðsögumaður og náttúruljósmyndari. Meðfylgjandi ljósmyndir tók Ellert, sem fullyrðir að Reykjanesskaginn sé náttúruundur á heimsvísu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hvað á hann við með því?

„Aðeins á einum öðrum stað í heiminum gengur úthafshryggur á land á mótum tveggja jarðskorpufleka með sýnilegum ummerkjum eldsumbrota liðinna árþúsunda. Hraunmyndanir, gígaraðir, sprungureinar, hverasvæði, hraunhellar og jarðminjar af öllum gerðum prýða einstaka eldfjallanáttúru skagans. Og þetta er allt hér í hlaðvarpanum, sem felur í sér ýmis tækifæri,“ svarar Ellert.

Ellert segir nýjan Suðurstrandarveg eflaust eiga eftir að kalla á aukna umferð um helstu náttúrudjásn Reykjanesskagans sem hann segir Reykjanesfólkvang og Krýsuvík vera.

„Í þessu felast tækifæri fyrir ferðaþjónustuna og ekki síður almenning að njóta betur þess sem svæðið hefur upp á að bjóða til náttúruskoðunar og útivistar. Þarna er að finna margar spennandi gönguleiðir og áhugaverð náttúrusvæði. Þá eru ekki síður merkilegar þær sögulegu minjar sem svæðið hefur að geyma,“ segir Ellert sem fyrir nokkru gerði fjóra stutta og áhugaverða fræðsluþætti um gönguleiðir á Reykjanesskaga. Þættina er hægt að skoða á vef Víkurfrétta, vf.is.

Þær eru orðnar æði margar gönguferðirnar sem Ellert hefur farið um Reykjanesskagann síðan vorið 2006. Hann segist eiga eftir að fara margar í viðbót enda sé Reykjanesskaginn sannkölluð útivistarparadís sem komi sífellt á óvart.

Í Katlahrauni, austan við Grindavík, er að finna eina stórbrotnustu hraunmyndun Reykjanesskagans.

Lambafellsklofi er feiknamikil gjá í Lambafelli, austan við Trölladyngju. Fellið hefur hreinlega klofnað í tvennt og hægt er að ganga í gegnum gjána.


Kvöld við Austurengjahver í Krýsuvík. Háhitasvæðin á Reykjanesskaga eru uppspretta óþrjótandi myndefnis.


Brimið á Reykjanesi heillar marga.

Í Sogum við Trölladyngju er að finna afar litríkt og fallegt gil sem jarðhitinn hefur sett svip á.


Fallegur gatklettur yst á Reykjanesi, við svokallaðar Skemmur.

Gönguhópur á Sveifluhálsi.

Efsta myndin: Arnarvatn er forn eldgígur á Sveifluhálsi en þar er að finna stórbrotna náttúru.