Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Reykjanesbær 25 ára: Hinir einu sönnu Keflavíkurbítlar
Sigurður Vignir Bergmann Magnússon, Tómas Jónsson, Þórður Gunnar Valdimarsson og Eiríkur Jónsson.
Sunnudagur 22. september 2019 kl. 08:29

Reykjanesbær 25 ára: Hinir einu sönnu Keflavíkurbítlar

Hvað varð um Hina Taktlausu? Tómas Jónsson rifjar upp æskuminningar úr Keflavík

Árið var 1963 og Bítlaæðið hafði skollið á með þvílíku ofurafli að enginn heilvita unglingur gat hugsað heila hugsun til enda án þess að John, Paul, George og Ringo kæmu þar við sögu. „She Loves You Yeah Yeah Yeah“ söng í eyrum okkar dag og nótt. Við spóluðum í gegnum morgunblöðin við fyrsta hanagal til að hafa fréttir af og sjá nýjar myndir af goðunum. Tónlistin var auðvitað aðalmálið en hárgreiðslan líka engin spurning. Sjáðu Paul er jafnvel kominn með síðara hár en George. Sigga frænka strauk alltaf hárið frá enninu þegar hún sá mig og sagði: „Ég vil fá að sjá þetta gáfulega Grindavíkurenni þitt, Tommi minn.“

Við lágum yfir útvarpinu, Lögum unga fólksins, kanaútvarpinu og jafnvel Radio Luxemburg. Svo var snilldin sú mesta og besta að Úlli bróðir hafði smíðað segulbandstæki sem hann gaf okkur Eika í fermingargjöf og því fylgdi míkrafónn svo við gátum tekið upp alla þessa dýrð og dásemd og hlustað á hana aftur og aftur. Vá hvað sæluhrollurinn hríslaðist um mann allan. Þetta var auðvitað, án þess að við skyldum það til fulls, einhverskonar uppljómun. Við vissum það þó, að allt sem á undan var gengið í mannkynssögunni gat ekki skipt neinu máli lengur. I Saw Her Stending There var sönnun þess.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Var nokkuð annað í stöðunni en að taka þátt í þessari miklu gleði og stofna hljómsveit. Við vorum jú færir í flestan sjó, aldir upp í sjávarplássinu Keflavík og ekkert sem gat stoppað okkur frá því að verða alvöru bítlahljómsveit. Hljómar voru að vísu aðeins á undan okkur en hvað, við þurftum bara að stúdera hvernig þeir gerðu þetta. Við vorum strax komnir með hártoppinn, leðurjakkana og þá vantaði bara hljóðfærin. 

Vignir Bergmann átti gítar og var í gítarnámi. Hann var strax orðinn fjandi góður, skildi þetta allt og var jafnvel fljótur að fatta gripin bara með því að hlusta á bítlalögin – ótrúlegt en satt. Hann sýndi okkur hvernig hann gerði þetta og það leið ekki á löngu þar til við gátum stillt puttana inn á G-C-D-hljóma á gítarhálsinum. Gaman! Spennandi!

Við Eiki bróðir og Vignir áttum heima á sömu þúfunni nánast, þannig að við vorum oft samferða í og úr skólanum. Við vorum í fyrsta bekk í Gaggó. Þar var allt í einu mættur nýr strákur í bekkinn sem hét Þórður Gunnar Valdimarsson. Við urðum strax vinir Gunna og fljótt kom í ljós að hann var jafn illa haldinn af bítlabakteríunni og við. Það sem meira var, og ég get ómögulega gert mér grein fyrir því hvernig það gerðist, hann átti trommusett. VÁ! Alvöru trommusett. Þau lágu sko ekki á lausu á þeim tíma. Þarna small allt saman. Þvílík gleði og gæfa, nú gátum við stofnað hljómsveitina.

Gunni var auðvitað Ringó, trommarinn. Vignir var að sjálfsögðu John – hann var aðal. Eiki var George og ég minnti eitthvað á Paul. Þetta gat ekki klikkað. Við vorum aðeins sentimetrum frá skotpallinum sem fleygði okkur upp á stjörnuhimininn – með öllu sem því fylgdi. Hinir einu sönnu íslensku Bítlar. 

Eitt af því fyrsta sem við þurftum auðvitað að gera var að láta taka af okkur myndir, hljómsveitarmyndir, annars værum við í raun varla til í alvörunni. Þetta var forgangsmál og lánið lék áfram við okkur því Bjartmar Hlynur Hannesson, bekkjarbróðir okkar og vinur, átti myndavél og kunni á hana. Hann var sko alveg til í að mæta heima hjá Gunna Vald og smella af okkur nokkrum myndum. Magga Lilja, systir Gunna Vald, hafði vit á því að greiða „lubbana“ og gera okkur klára fyrir myndatökuna, ekki veitti nú af.

Annað forgangsmál var að finna nafn á hljómsveitina. The Beatles, hvað væri það upp á íslensku? Við vorum stórhuga en þjóðlegir og vildum bara fá nafnið þýtt yfir á íslensku. Við héldum því á fund Rögnvaldar Sæmundssonar, skólastjóra, og báðum hann um að hjálpa okkur. Hann brást vel við og tók okkur fagnandi þegar við höfðum útskýrt fyrir honum erindið. Beat-Less, Beat þýðir „taktur“ og Less þýðir „án einhvers“. The Beat-less þýðir því Hinir Taktlausu.

Þá var það komið – Hinir Taktlausu. Svolítið skrýtið en ef að Rögnvaldur segir það þá stendur það eins og stafur á bók. Ha?! Hinir Taktlausu. Var það þá málið? Jááá. Ókey. Það dróg aðeins úr okkur og spennan dofnaði aðeins næstu daga en áfram skyldi haldið. Heimsfrægðin, stelpurnar og peningarnir.

Við slógum rækilega í gegn svo ekki sé meira sagt strax á okkar fyrsta giggi á skólaballi í Gaggó. Ég hafði gert rosaflott ballplakat og það var troðfullt hús og mikil eftirvænting. Við vorum upphitunarband kvöldsins en Hljómar tóku svo við af okkur. Við fengum að nota græjurnar þeirra og keyrðum allt upp eins og við gátum. Þetta var náttúrlega algjörlega geggjað. Þvílíkt stuð og þvílík stemmning! Salurinn var allur á hringlandi iði, dans og gleðiöskur svo varla heyrðist í okkur. Ógleymanlegt kvöld.

Eftir því sem árin líða verð ég þó að viðurkenna að þetta hefur allt svolítið verið að þvælast inn og út úr draumheimi mínum þannig að á einstaka augnabliki hellist yfir mig þessi leiðinda efi. Hvað, hvað varð um Hina Taktlausu?