Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Rekur hótel í skíðaparadís í Vermont
Þriðjudagur 1. mars 2016 kl. 11:34

Rekur hótel í skíðaparadís í Vermont

Njarðvíkingurinn Jóhanna Harðardóttir er ævintýramanneskja

Njarðvíkingurinn Jóhanna Harðardóttir hefur verið viðriðin ferðaþjónustu og hótelrekstur frá unglingsaldri. Fyrst í Njarðvík á hinu sáluga Hótel Kristina og svo víðar eftir það. Jóhanna hefur verið búsett í Bandaríkjunum í rúman áratug og starfrækir þar nú hótel í Vermont á áhugaverðu skíðasvæði í þriggja klukkustunda fjarlægð frá Boston. Hótelið er lítið 14 herbergja „bed & breakfast“ og situr við rætur Mount Snow sem er aðal skíðasvæðið í West Dover.

Lék í Rocky Horror í Key West

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jóhanna fór fyrst til Key West í Flórída þegar leiðin lá vestur um höf. Hún endaði fyrir slysni í leikprufu með vinkonu sinni þar sem hún ákvað að slá til og reyna við hlutverk í Rocky horror picture show. „Ég ákvað þetta bara í gamni og var nánast ráðin á staðnum til þess að leika hlutverk Magentu,“ segir Jóhanna. Þá var ekki aftur snúið og hófst nokkurra ára leikhúsferill á þessari syðstu eyju Bandaríkjanna. Jóhanna eignaðist dóttur tveimur árum síðar og vann fyrir sér með því að passa börn á hótelum. Hún stofnaði vefsíðu í kringum þá starfsemi ásamt því að vinna sem ljósmyndari í lausamennsku. Hún bjó í sjö ár í Key West og fluttist þaðan til Las Vegas þar sem þær mæðgur stoppuðu í tvö ár áður en förinni var heitið til Vermont í Massachusetts fylki.

Jóhanna hefur ferðast víða um heiminn og gegnt ýmsum störfum. „Á milli þess sem ég ferðaðist um hálfan heiminn hér áður fyrr vann ég t.d. í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, álverinu í Straumsvík, var sjómaður á frystitogara og síðar með Landhelgisgæslunni.“ Einnig starfaði hún sem barþjónn, dyravörður og söng- og leikkona hérlendis.

Á veturna snýst allt um skíðin og annað vetrarsport á þessu svæði þar sem Jóhanna býr. Hægt er að fara í hundasleðaferðir og á snjósleða svo fátt eitt sé nefnt. Á sumrin er staðurinn einnig vinsæll meðal útivistarfólks sem fer í fjallgöngur í kajaksiglingar eða í golf. Jóhanna hefur ekki rekist á marga Íslendinga á staðnum en hún telur að þeir viti hreinlega ekki af þessari skíðaparadís.