„Reisubók Guðríðar Símonardóttur hreinlega breytti lífi mínu“
- Steinunn Una Sigurðardóttir er lesandi vikunnar.
Lesandi vikunnar í Bókasafni Reykjanesbæjar er Steinunn Una Sigurðardóttir en hún er að leika sér um þessar mundir í miðaldursorlofi eftir að hafa komið fjórum börnum á legg og verið í krefjandi störfum. Una les á hverjum degi og hlustar á hljóðbækur í hverri „dauðri stund.“
Hvaða bók ertu að lesa núna?
Bækurnar á náttborðinu mínu eru: Daring Greatly eftur Brené Brown, Commonwealth eftir Ann Patchett, Indversk heimspeki eftir Gunnar Dal, Run Less - Run Faster og Anatomy of Fitness Yoga eru búnar að vera í nokkur ár á náttborðinu og glugga ég oft í þær. Sú hljóðbók sem ég er að hlusta á núna er Andartak eilífðar eftir Paul Kalanithi.
Hver er uppáhaldsbókin?
Ég fæ bókadellur og á því nokkrar uppáhaldsbækur. Upp úr tvítugu þá grét ég yfir Gone With the Wind í nokkur ár, þá tók við Hús andanna eftir Isabel Allende. Svo var það Reisubók Guðríðar Símonardóttur sem mér fannst hreinlega breyta lífi mínu þegar ég var um þrítugt. Nú undanfarin ár hafa átt stað í hjarta mínu bækur eins og Veröld sem var eftir Stefan Zweig sem góður vinur minn gaf mér og Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson.
Hver er uppáhaldshöfundurinn?
Ég á engan uppáhaldshöfund.
Hvaða tegundir bóka lestu helst?
Ég les allt á milli himins og jarðar. Bara stuðið sem ég er í þann daginn. En æviminningar og skáldsögur byggðar á heimildum höfða sterkt til mín.
Hvaða bók hefur haft mestu áhrifin á þig?
Reisubók Guðríðar hafði mikil áhrif á mig á þeim tíma og Gone With the Wind gleymi ég aldrei enda mjög rómantísk. Mátturinn í núinu eftir Eckhart Tolle les ég reglulega og læri alltaf eitthvað nýtt.
Hvaða bók ættu allir að lesa?
Mér finnst að allir Íslendingar ættu að lesa Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson.
Hvar finnst þér best að lesa?
Mér finnst best að lesa uppi í rúmi og undir sólskyggni á sólarströnd
Hvaða bækur standa upp úr sem þú mælir með fyrir aðra lesendur?
Það er Andartak eilífðar eftir Paul Kalanithi og The Handmaid´s Tale eftir Margaret Atwood.
Ef þú værir föst á eyðieyju og mættir velja eina bók til að hafa hjá þér, hvaða bók yrði fyrir valinu?
Í augnablikinu þá myndi ég taka með mér Gone With the Wind. Hún er sú stærsta sem ég man eftir akkúrat núna og svo langt síðan ég las hana.
Lesandi vikunnar er samstarfsverkefni Bókasafns Reykjanesbæjar og Víkurfrétta og verður nýr lesandi valinn í hverri viku í sumar. Þau sem vilja taka þátt eða mæla með lesanda geta skráð sig á heimasíðunni sofn.reykjanesbaer.is/bokasafn eða í afgreiðslu Bókasafnsins að Tjarnargötu 12.