Reif af sér skyrtuna og saup pungblóð
Lið Fjölbrautarskóla Suðurnesja fór sigurför alla leið til Egilsstaða fyrir síðustu helgi þar sem lið FS og ME mættust í16 liða úrsllitum MORFÍS, mælsku- og ræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi.
Margir FS-ingar létu sig ekki muna um 12 klukkustuda ferðalag eftir þjóðvegi eitt til að styðja sitt lið í keppninni og létu vel í sér heyra. Að sögn viðstaddra voru þeir mun háværari heldur en heimamenn í stuðningsmannaliði ME.
Stuðningurinn virkaði greinilega vel því FS sigraði nokkuð örugglega með 130 stiga mun, sem þykir frekar mikið í MORFÍS.
Ræðumaður kvöldsins var bæjarstjórasonurinn Sigfús Jóhann Árnason en hann sýndi þar takta sem lengi verða í minnum hafðir. Meðal annars reif hann af sér skyrtuna í miðri ræðu og saup með tilþrifum af svokölluðu „pungblóði“ en sá görótti drykkur innihélt reyndar bara matarlit og vatn þegar betur var að gáð. En tilþrifin höfðu greinilega tilætluð áhrif.
Ræðulið FS skipuðu eftirtaldir: Guðni Oddur Jónsson, Davíð Már Gunnarsson, Sigfús Jóhann Árnason og Anna Þorsteinsdóttir.
Mynd/FS: Eins og sjá má er ræðulið FS allt annað en árennilegt.