Refir í Landnámsdýragarðinum - Myndir
Landnámsdýragarðurinn við Víkingaheima er opinn alla virka daga frá klukkan 11-17. Þar gefur að líta ýmis dýr sem þrífast á Íslandi og önnur dýr eins og geitur sem lifa ekki villtar hérlendis.
Þarna búa hænsn, kindur, naut, kanínur og nýjustu íbúarnir, refir. Gunnar Júlíus Helgason umsjónarmaður dýragarðsins segir að aðsókin hafi ekki verið með besta móti þegar opnaði í vor, enda óvenju kalt vor þetta árið.
Hins vegar segir hann að mikið af fólki af höfuðborgarsvæðinu viti nú af garðinum og leikskólar og skólar heimsæki garðinn af kappi. „Svo eru leikjanámskeiðin héðan og skólarnir dugleg að koma í heimsókn, sumir krakkanna héðan úr Akurskóla eru nánast daglegir gestir,“ segir Gunnar.
Garðurinn er mjög frjálslegur og dýrin blanda geði við hvert annað og auðvelt er fyrir gesti að nálgast dýrin og klappa þeim þó ekki sé leyfilegt að gefa þeim.
Blaðamaður Víkurfrétta varð vitni að því þegar Gunnar náði í skottið á Aski, öðrum refanna sem nýlega fluttust í landnámsgarðinn. Gunnar leyfði börnum sem voru við viðstödd að klappa rebba sem hvæsti þó og klóraði aðeins frá sér þegar Gunnar eltist við hann.
Rebbi róaðist þó niður og Júlía Halldóra, dóttir Gunnars hélt m.a á honum Aski en hún virtist algerlega ósmeyk við dýrin. „Ég hef refina tvo með mér heim á kvöldin til þess að þeir venjist því að umgangast mannfólkið, þeir eiga það þó til að vera styggir enda mjög ungir ennþá.“ Refirnir hafa verið vinsælir eftir að þeir flutti í garðinn fyrir skömmu en börnin biði óþreyjufull eftir komu þeirra í þónokkurn tíma.
Refurinn Askur.
Geithafurinn Herkúles. Öll dýr garðsins bera nöfn úr norrænni goðafræði nema Herkúles sem fær sitt nafn úr grisku goðafræðinni.
Heimalingurinn hún Hel.
Börnin eru í mikilli nálægð við dýrin.
Bæjarstjórinn og barnabarn hans kíktu í heimsókn.
VF-Myndir/EyþórSæmundsson: Efst má sjá Gunnar með refinn Ask og svo dóttur hans Júlíu sem heldur í hnakkadrambið á Aski.