Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Raunir kassabílaeigenda í Reykjanesbæ
Miðvikudagur 3. mars 2004 kl. 10:50

Raunir kassabílaeigenda í Reykjanesbæ

Á mánudag var kassabíl stolið frá Þorvarði Ólafssyni og Bergsteini Ásgrímssyni 11 ára strákum í Reykjanesbæ. Kassabíllinn er samansettur úr öxli af tjaldvagni og framhjóli af Freestyle reiðhjóli, en vinirnir eyddu miklum tíma í smíði bílsins, með smá aðstoð pabba þeirra beggja.
Þegar vinunum varð ljóst að kassabílnum hefði verið stolið tilkynntu þeir stuldinn til lögreglunnar í Keflavík og að sögn þeirra tók lögreglumaðurinn sem skráði atburðinn vel á móti þeim. Í kjölfarið var sett tilkynning um kassabílastuldinn á fréttasíðu lögreglunnar í Keflavík þaðan sem Víkurfréttir fréttu af málinu og var sett frétt á netið rétt fyrir hádegi á þriðjudag.
Síðar um daginn litu Víkurfréttir í heimsókn til Þorvarðar og Bergsteins á Íshússtíginn og var ætlunin að hafa viðtal við þá í Víkurfréttum um kassabílastuldinn þar sem hvetja átti íbúa bæjarins að svipast um eftir bílnum.
Álfheiður Jónsdóttir móðir Þorvarðar segir að strax og fréttin um kassabílastuldinn hafi birst á vf.is hafi fólk byrjað að hringja. Um áttaleytið á þriðjudagskvöld fannst kassabíllinn og segja strákarnir að frétt Víkurfrétta og vökult auga eins pabbans í Reykjanesbæ hafi orðið þess valdandi að bíllinn fannst. Strákarnir vildu koma á framfæri þakklæti til lögreglunnar í Keflavík, Víkurfrétta og pabbans sem fann bílinn. Á Íshússtígnum verða áfram smíðaðir kassabílar, en þrátt fyrir ungan aldur Þorvarðar er þetta fjórði kassabíllinn sem hann smíðar.

 

 

 

 

 

 

Myndirnar: Þorvarður Ólafsson á kassabílnum í morgun, en bíllinn kom í leitirnar seinnipartinn í gær. Vinirnir Þorvarður Ólafsson og Bergsteinn Ásgrímsson í gær þegar Víkurfréttir litu við hjá þeim til að fræðast um kassabílastuldinn. Þeir voru fremur framlágir í gær þegar kassabíllinn var ekki fundinn.

VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024