Rauðglóandi götuleikhús í Reykjanesbæ
Hávaxnar undraverur og glaðværir trommuleikarar skálma um götur og torg og slá tóninn fyrir Listahátíð í Reykjavík 2022. Risavaxnir fánar og blævængir svífa yfir mannfjöldanum og loftið er þrungið spennu, fegurð og hrynjandi. „Við í Reykjanesbæ erum svo einstaklega heppin að hafa fengið boð um að fá þetta stórfenglega opnunaratriði Listahátíðar í Reykjavík í heimsókn til okkar laugardaginn 4. júní 2022. Þessu má enginn missa af. Gangan hefst kl. 12 við Hafnargötu 88 og verður gengið niður Hafnargötu í átt að Duus Safnahúsum,“ segir í fundargögnum menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar.
Hollenski leikhópurinn Close-Act Theatre hefur starfað í hartnær þrjátíu ár og vakið athygli víða um lönd fyrir leiftrandi götuleikhússýningar sem hrífa áhorfendur með sér inn í veruleika þar sem allt getur gerst. Risaeðlurnar í sýningunni Saurus spígsporuðu um miðborg Reykjavíkur í tilefni af opnun Listahátíðar árið 2018 og glöddu áhorfendur á öllum aldri. Hér snýr hópurinn aftur með seiðandi viðburð á heimsmælikvarða sem engin má missa af.
Menningar- og atvinnuráð hvetur íbúa Reykjanesbæjar að fjölga á Hafnargötuna þann 4. júní og upplifa þetta stórfenglega atriði.