Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Ragnheiður Skúladóttir tók við nafnbótinni listamaður Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 9. september 2009 kl. 13:48

Ragnheiður Skúladóttir tók við nafnbótinni listamaður Reykjanesbæjar


Ragnheiður Skúladóttir, píanóleikari og píanókennari, tók formlega við viðurkenningunni Listamaður Reykjanesbæjar 2009 - 2012 á hátíðartónleikunum sem fram fóru í FS um síðustu helgi á Ljósanótt. Listamaður Reykjanesbæjar er útnefndur einu sinni á hverju kjörtímabili af bæjarráði og er valið kunngjört á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Ragnheiður var erlendis í sumar og tók því við nafnbótinni nú.


Ragnheiður Skúladóttir hóf píanónám 10 ára gömul, hjá frú Vigdísi Jakobsdóttur. Fjórum árum síðar, árið 1957, hóf hún píanónám við Tónlistarskólann í Keflavík sem þá var ný stofnaður. Tveimur árum síðar, er Ragnheiður var aðeins 16 ára gömul, var hún orðin undirleikari hjá Karlakór Keflavíkur, sem segir heilmikið um tónlistarhæfileika hennar og hve efnilegur nemandi hún var.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ragnheiður starfaði í mörg ár með Karlakórnum og varð mjög fljótt eftirsóttur undirleikari og hefur í gegnum tíðina leikið með fjöldanum öllum af listamönnum, bæði einsöngvurum, kórum og hljóðfæraleikurum.


Hún hóf mjög ung að kenna á píanó við Tónlistarskólann í Keflavík, þar sem hún starfaði allt þar til Tónlistarskóli Reykjanesbæjar tók til starfa haustið 1999. Ragnheiður var þá ráðin að þeim nýja skóla og gerð að deildarstjóra hljómborðsdeildar tveimur árum síðar.
Ragnheiður hefur alltaf verið vinsæll kennari, nemendur sóst sérstaklega eftir því að komast að hjá henni.


Ragnheiður hefur verið virkur þátttakandi í tónlistarlífi Keflavíkur og Njarðvíkur, síðar Reykjanesbæjar, í um 50 ár, bæði sem píanóleikari og tónlistarkennari.
Þá má geta þess að Ragnheiður Skúladóttir fékk Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, árið 1997.

----

VFmynd/elg - Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs, afhendi Ragnheiði viðurkenninguna á Ljósanótt.