Raggi Bjarna skreytti Offann og æfði jólasöngva
Raggi Bjarna sem fer fyrir sönghópnum sem ætlar að skemmta á jólahlaðborðinu í Officera klúbbnum kláraði að skreyta klúbbinn í gærkvöldi. Hann var langt fram á nótt en lét sér ekki muna að æfa söngdagskrána með Þorgeiri Ástvalds, Lísu og Jogvan Hansen í leiðinni. „Ég kann þetta allt maður, blessaður vertu. Það er unga fólkið sem er alltaf að læra,“ sagði Raggi undir miðnætti í gær.
Söngdagskrá og sögustund með Ragga Bjarna
Aðspurður um söngdagskrána sagðist Ragnar ekki hafa neinar áhyggjur af þessu. „Blessaður vertu maður, nú er búið að skreyta og þá þarf ekkert að hafa áhyggjur af neinu. Við endum allavega á Líða fer að jólum eftir Gunna Þórðar. Svo verð ég með nokkrar góðar sögur úr Officera klúbbnum frá því ég var að syngja með KK sextettinum þarna í gamla daga. Það verða sögur sem varla er hægt að segja fyrr en eftir tíu á kvöldin“.
Söngdagskráin fer um víðan völl í tónlistarsögunni og mörg lögin tengjast Officera klúbbnum en önnur auðvitað jólum og aðventu.
„Ég hlakka rosalega til að syngja með Ragga. Ég mun líklega lifa á því alla ævi að fá að deila með honum sviði. Hann var að kenna mér raddirnar í Líða fer að jólum í gær og spurði mig svo hvort ég myndi ekki eftir þessu lagi. Ég meina hver kann ekki Líða fer að jólum,“ sagði Lísa Einarsdóttir söngkona en hún og X Factor sigurvegarinn Jogvan sem nú á vinsælustu plötu landsins syngja á jólahlaðborðinu í Offanum með Þorgeiri og Ragga Bjarna.
Uppselt er núna á laugardaginn en eitthvað er laust ennþá á síðustu helgina í nóvember og fyrstu tvær helgarnar í desember. Nánari upplýsingar er að finna á www.offinn.is og í síma 517 27 27
Mynd að ofan: Jogvan, Lísa, Raggi og Þorgeir í miklu fjöri í Offanum. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson
Salurinn í Offanum hefur nú verið skreyttur í anda jólanna.