Puttalingarnir: Komnir til Mexíkó
Frá því að við, undirritaðir, lentum á flugvellinum í Cancún, Mexíkó hefur ein tómstundariðja verið tekin fram yfir allt annað. Það er hengirúm. Og þegar við erum ekki liggjandi á hengirúmum erum við liggjandi á ströndinni. Í sannleika sagt er það ekki það eina sem við höfum gert síðustu vikuna, en er þó ekki langt frá því. Einstöku sinnum höfum við risið upp úr hengirúmunum (sem er hægara sagt en gert talandi af reynslu) og t.d. fengið okkur kvöldmat, náð í fleiri bjóra eða bara til að koma sér í háttinn. Svo og líka þessi ótalmörgu skipti sem við höfum farið að gera eitthvað skemmtilegt. Þar innan telst til dæmis sundferðir með köfunarpípur, skoðunarferðir til ævafornra indíánarústa og hellaskoðanir.
Við frændurnir sáum ekki fram á að geta notað kúbversku afgangspeningana okkar í neitt eftir að við færum þaðan svo við eyddum þeim öllum í 7 ára gamalt kúbverskt romm af bestu gerð, og gáfum svo afgreiðsludömunni í fríhöfninni ærlegt þjórfé fyrir afganginn. Og það var sko skálað um leið og fannhvítur strandsandurinn snerti okkar tuttugu tær í ferðamannanýlendunni á Kveney (Isla Mujeres). Daginn eftir var svo ljóst að ekki aðeins stútuðum við rommflöskunni, heldur kláruðum við líka fyllerískvótann næstu vikurnar. Og greyið Skúli varð óstarfhæfur daginn eftir því þar voru timburmenn að verki. Þann daginn var líka ekkert gert annað en að liggja á hengirúmum og ströndum til skiptis. Þann þriðja var Rúnar Berg svo óstarfhæfur vegna bruna. Og þann daginn brunuðum við um eyna á vespu milli þess sem við skoðuðum undur hafdjúpanna með köfunarpípu. Okkur báðum til furðu skiluðum við vespunni óbrotnir. Því það var svo sannarlega hlegið á götum úti af vankunnáttu okkar frændanna á þessu mótortæki.
Kveney er svolítið mjög sérstök eyja. Nokkrum kílómetrum út fyrir Cancún (sem er borg fræg fyrir pakka- útskriftaferðir með tilheyrandi álagningu) er Kveney meira bakpokaferðalanganýlenda með tilheyrandi hippamenningu. Það sem bætti svo við upplifun okkar heimsreisufarana á þessari eyju var stökkið frá Kúbu. Styttra en til Færeyja var flugið en samt mætti halda að við værum komnir á annan hnött. Hérna í Mexíkó er virkilega raunhæfur möguleiki að treysta fólki án þess að verða rændur, og ennfremur virðist fólk skilja að „no“ þýðir að maður vilji ekki láta þrengja meira að sér.
„Glætan að við séum í Mexíkó,“ var hugsun ofarlega í huganum á Kveney því okkur fannst við alls ekki vera staddir í Mexíkó þó við værum þeirra megin við landamærin. Svo við lofuðum okkur því að áður en við færum suður til Belís, myndum við dvelja í alvöru Mexíkó. Fyrst skoðuðum við þó eitt af hinum „nýju“ undrum veraldarinnar, Chichen Itzá. Þannig fögnuðum við mánaðarafmæli reisunnar. Greinilegar voru rústirnar ferðarinnar virði en ekki eins yfirgripsmikið og vonast var eftir. Eiginlega var aðalsmerki heimsminjanna, El Castillo (stærsti pýramídinn), eina markverða rústin sem hægt var að skoða. Og það má ekki einu sinni fara inn í hann (einhver blók reyndi víst í gamladaga að ræna steini úr pýramídanum sem skemmdi allt fyrir okkur hinum). Það hjálpaði mjög svo samt að við vorum komnir eldsnemma um morgunninn á undan bæði sólinni og, það sem mikilvægar er, öðrum túristum.
Seinna sama dag héldum við svo sunnar. Ekki alla leið til Belís, heldur til bæjar þar sem hengirúm er þjóðarsport. Tulum, heitir staðurinn. Að undanskyldri þeirri staðreynd að þessi pistill var skrifaður þar og einni hellaskoðun höfum við ekki stígið feti úr rúmunum sem hengd eru við tré. Fyrrnefnd hellaskoðun er ábyggilega sú áhugaverðasta sem við munum fara í í nánustu framtíð. Því þessi hellaskoðunarferð (Dos ojos heita hellarnir) var ekki farin á tveim jafnfljótum eins og venjan er þegar hellar eru skoðaðir, heldur með froskalöppum og köfunarpípu. Þessir hellar eru nefnilega fullir af ferskvatni, eða hálffullir réttara sagt, og því þarf maður að synda í gegnum þetta náttúruundur.
Framundan er lítið annað en meiri afslöppun því á morgun erum við hugsa um að fara til Belís, sem er víst eitthvað mest afslappaðasta land í heimi......
Rúnar Berg og Skúli