„Púrtvínið algerlega ómissandi á aðventunni“
Kolbrún Marelsdóttir, eða Kolla eins og hún er kölluð, er mikið jólabarn. Henni finnst fjölskyldan ómissandi á jólunum og heldur fast í gamlar hefðir. Hún bakar sörur og finnst fátt notalegra en að njóta alls þess góða á aðventunni og í kringum jólin.
Ertu mikið jólabarn?
Já, heldur betur. Ég elska allt við jólin, gleðina, kærleikann, fegurðina og að ógleymdum öllum fallegu ljósunum. Mamma var alltaf mikið jólabarn og ég er alin upp við það að jólin séu mikil gleðihátíð og ég hef haldið í það.
Heldur þú fast í gamlar jólahefðir?
Já, það geri ég. Til dæmis bökum við alltaf laufabrauð og sörur með fjölskyldunni og höfum gert í mörg ár. Á aðfangadag er alltaf kveikt á útvarpinu rétt fyrir kl. 18 og hlustað á jólaklukkurnar hringja jólin inn, þegar því er lokið hefst borðhald. Ég fer alltaf í kirkjugarðinn með fjölskyldunni, kveiki á kertum fyrir þá sem ég á þar og á notalega stund. Svo má ekki gleyma púrtvíninu á aðventunni sem er algerlega ómissandi.
Hvað er ómissandi á jólunum?
Fyrst og fremst er það fjölskyldan og fólkið mitt. Svo auðvitað að njóta alls þess góða sem er í kring um jólin, laufabrauðið, sörurnar og fleira.
Hvað finnst þér skemmtilegast við jólahátíðina?
Það er eiginlega allt bara, knúsið, keleríið, allur góði maturinn og öll notalegheitin sem eru á aðventunni og í kringum jólin. Mér finnst líka mjög gaman að fara á tónleika á aðventunni, það er alltaf svo hátíðlegt.
Bakar þú smákökur fyrir jólin?
Nei, ég baka eiginlega bara sörur.
Hvenær kláraðir þú að kaupa jólagjafirnar?
Ég var á góðum tíma þetta árið og kláraði þær í nóvember.
Hvenær setur þú upp jólatréð?
Það er ekki föst hefð hjá okkur með dag en það fer yfirleitt upp um 22. desember.
Hvað er eftirminnilegasta jólagjöfin?
Eftirminnilegasta jólagjöfin þegar ég var barn var þegar afi og amma gáfu mér dúkku sem gat grátið og dúkkuvagn.
Hvenær eru jólin komin fyrir þér?
Fyrir mér eru jólin fólkið mitt og samvera með þeim, en ekki pakkar, glansmynd eða glingur. Mér finnst jólin því vera komin þegar ég er komin með allt fólkið mitt í mat og við eigum notalega stund.