Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Púlsinn á Sandgerðisdögum
Föstudagur 20. ágúst 2004 kl. 13:49

Púlsinn á Sandgerðisdögum

Púlsinn ævintýrahús tekur nú öðru sinni þátt í þeirri stórskemmtilegu hefð sem nefnist Sandgerðisdagar. Það er markmið Púlsins á hverju ári að finna fólk í plássinu sjálfu sem tilbúið er að koma fram. Það tókst aftur núna! Púlsinn blæs því til veislu fimmtudagskvöldið 26. ágúst klukkan 20:00 og lokkar fram dagskrá með heimafólki.
Þetta verður fjörugt kvöld þar sem Sandgerðingar sýna hvað í þeim býr. Fyrst stígur á stokk, ung og efnileg stúlka, Hafrún Hafþórsdóttir 15 ára,  sem les frumsamin ljóð. Þá koma bræðurnir og frændurnir í tríóinu sem Hljóp á snærið. Systkini sem kalla sig Fríða og Dýrið koma næst en dagskráin endar á hinum sívinsælu keflvísku karlmönnum í Breiðbandinu, sem orðið er heimsfrægt á Suðurnesjum!
Á föstudagskvöldinu verður dularfullt Álfakvöld og hefst dagskráin klukkan 22:00. Þar fjallar Erla Stefánsdóttir, sjáandi, um tilvist álfa og huldufólks í umhverfi okkar en á eftir henni kemur sagnakonan mikla Sigurbjörg Karlsdóttir og segir okkur álfasögur af Suðurnesjum. Aðgangseyrir er 1.000 kr. á þessum kvöldskemmtunum.
Laugardagurinn verður að mestu helgaður leiklistinni í Púlsinum. Þá eru börn og unglingar sem verið hafa á leiklistarnámskeiðum Púlsins í aðalhlutverki. Þau verða með leikskemmtun á útileiksviði Púlsins sem hefst klukkan 13:00 stundvíslega. Þetta er litrík og fjölbreytt skemmtun fyrir alla aldurshópa.
Svo dansa gullfallegar magadansmeyjar seiðandi magadans á palli Púlsins strax á eftir börnunum en þá lýkur sýningunni á útipallinum.
Götuleikhús hefst svo úti um allan Sandgerðisbæ frá klukkan 14:30 í umsjá eldri leikhóps Púlsins. Þar fer hæfileikaríkt ungt fólk, 16 ára og eldri, sem töfrar fram ýmsar skrautlegar og skrýtnar persónur. Verið viss um að hafa myndavélina með!
Opið hús verður svo í Púlsinum til klukkan 17:00.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024