Prófuðu vatnsbyssuna á slökkvibílnum
-Fengu viðurkenningu frá Loga og Glóð
Börnin í elsta árgangi leikskólans Heiðarsels í Keflavík tóku í vetur þátt í forvarnarfræðslu um eldvarnir þar sem þau Logi og Glóð sáu um fræðsluna. Brunavarnir Suðurnesja eru með þau Loga og Glóð á snærum sínum og það kom í hlut Gunnars Jóns Ólafssonar, verkefnisstjóra eldvarnaeftirlits Brunavarna Suðurnesja að afhenda börnunum viðurkenningarskjal í liðinni viku.
Efir að hafa fengið viðurkenningu var haldið út á bílastæði við leikskólann þar sem slökkvibíll beið barnanna sem fengu að skoða bílinn. Þá fengu allir einnig að sprauta úr öflugri vatnsbyssu slökkvibílsins og finna kraftinn í vatninu.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi við þetta tækifæri.