Prjónaður ljósastaur við Hafnargötu
Ljósastaur við Hafnargötuna í Reykjanesbæ hefur fengið skemmtilega andlitslyftingu en fáir vita að hann er hluti af poppsögu Íslands.
Það voru konur í prjónahóp Virkjunar sem er miðstöð fyrir fólk í atvinnuleit sem prjónuðu á staurinn góða en hann kemur fyrir í texta lagsins Skólaball eftir Magnús Kjartansson.
Magnús hefur sagt frá því að textinn við þetta þekkta lag er byggður á sönnum atburðum og er stúlkan sem um ræðir konan hans í dag. Staurinn sem hún hallar sér upp að í laginu segir hann hafa verið fyrir framan gamla kaupfélagið við Hafnargötu en í textanum segir: Eftir langa mæðu heyrði ég hljóð, hún kom gangandi að mér snöktandi og móð, og upp að ljósastaur sér hallaði og um ennið hélt. (Sumir hafa nú misskilið þennan texta og sungið: „og upp að ljósastur sér hallaði ofurmennið ég“).
Skólaball verður flutt á hátíðarsýningu Ljósanætur í Reykjanesbæ sem fengið hefur yfirskriftina: Gærur, glimmer og gaddavír en þar verður fjallað um tónlist og tíðaranda áratugarins 1970 – 1980 og koma tónlistarmenn af Suðurnesjum mikið við sögu. Sýningin verður frumsýnd miðvikudaginn 29. ágúst en alls verða haldnar þrennar sýningar í Andrews leikhúsinu á Ásbrú. Um 30 tónlistarmenn af Suðurnesjum taka þátt í sýningunni og er miðasala á midi.is.http://midi.is/leikhus/1/7095
Það er von skipuleggjenda sýningarinnar að þessi frægi staur fái verðugan sess í Bítlasögu bæjarins í framtíðinni og hugsanlega megi gera poppsögunni í Bítlabænum betri skil.
Ljósmyndir: Dagný Gísladóttir