Pie in the Sky með Elízu Newman fær frábæra dóma erlendis
Fyrir rúmri viku síðan þann 4. apríl síðastliðin kom önnur sóló plata Elízu Newman Pie in the Sky út um allan heim í stafrænu formi. Þó svo að það sé aðeins rúm vika síðan skífan kom út þá hefur hún hlotið mjög góðar viðtökur í Bretlandi og fjöldan allan af góðum dómum þar á meðal í The Sunday Mail sem hefur um 6 milljónir lesenda í hverri viku.
Einnig hefur platan verið í spilum í tvær vikur í indie spotlight á iTunes í Ameríku sem talin er mikil og góð kynning fyrir listamenn.
Er þetta talin vera nokkuð góður árangur fyrir sjálfstæða útgáfu þar sem Elíza gefur plötuna út undir eigin útgáfumerki Lavaland Records.
Elíza er stödd á Íslandi þessa dagana og mun halda tónleika með Helga Björnssyni á Café Rósenberg næsta þriðjudag 19. apríl sem partur af Fuglabúri FTT, Rásar 2 og Reykjavík Grapevine þar sem ólíkir tónlistarmenn koma saman og spila.