Páskaspjall: Ratleikur sem reynir bæði á gáfur og þekkingu
Dagný Gísladóttir verkefnastjóri hjá Heklunni svaraði nokkrum laufléttum páskaspurningum Víkurfrétta.
- Hvernig á að verja páskunum?
„Páskarnir hafa alltaf verið duttlungafullir hjá mér, ég læt það yfirleitt ráðast hvað ég geri og það hefur gefið góða raun. Vonandi hitti ég skemmtilegt fólk, borða góðan mat og á friðsælar samverustundir með fjölskyldunni“.
- Gefur þú mörg páskaegg eða færðu mörg egg?
„Dæturnar fá egg, ég reyni svo að sníkja af þeim sem vekur sjaldan lukku“.
- Á að ferðast innanlands eða utan?
„Ferðalög um páska hafa ekki gefist vel. Mér er minnisstæð skíðaferð sem farin var til Akureyrar þar sem frumburðurinn lýsti því yfir eftir eina ferð niður fjallið að hún væri búin að fá nóg og eftir það lagðist öll fjölskyldan, sem og tengdaforeldrarnir, í ælupest það sem eftir lifði ferðar.
Ég ætla því aðallega að ferðast um garðinn minn sem er að vakna til lífsins, tek kannski göngutúr um bæinn og kíki í tesopa hjá góðu fólki. Það er svo yndisleg ró yfir bænum um páska“.
- Hvernig páskaegg færðu þér?
„Eins og ég sagði áðan, það sem ég get kríað út úr dætrunum. Þarf kannski að breyta þeirri hefð“.
- Hvað er í páskamatinn, einhverjar hefðir þar?
„Tengdafjölskyldan borðar alltaf saman á föstudaginn langa og þar er páskalambið í aðalhlutverki sem er vel við hæfi“.
- Eru páskaeggin falin á þínu heimili?
„Já dæturnar þurfa að hafa fyrir eggjunum með þátttöku í ratleik sem bóndinn leggur mikinn metnað í og reynir þar á bæði gáfur og þekkingu. Fyrir vikið bragðast páskaeggin mikið betur“.