Páskaspjall: Með flugelda frá áramótunum í garðinum
Berglind Kristinsdóttir er framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Hún svaraði nokkrum laufléttum páskaspurningum hjá Víkurfréttum.
- Hvernig á að verja páskunum?
„Ég ætla að verja páskunum vel! Njóta þess að vera með fjölskyldunni minni. Stefni á að sjá myndina, The help eða Hjálpina. Ég var að ljúka við lestur bókarinnar og hún var alveg frábær. Ég er með samviskubit vegna þess að það eru flugeldar frá áramótum í garðinum mínum, ætli ég reyni ekki að hafa mig í það verkefni að týna saman rusl og laga aðeins til á blettinum“.
- Á að ferðast innanlands eða utan?
„Ég á nú frekar von á því að vera heima við um páskanna. En það er aldrei að vita hvað manni dettur í hug, ég er alla vegna með ís-rúnt á stefnuskránni“.
- Gefur þú mörg páskaegg eða færðu mörg egg?
„Ég gef 3 páskaegg. Við hjónin kaupum okkur eitt stórt saman, þátt fyrir einlægan ásetning um að minnka súkkulaðiát“.
- Hvernig páskaegg færðu þér?
„Ég er dyggur aðdáandi Nóa-Sírius páskaeggjanna“.
- Hvað er í páskamatinn, einhverjar hefðir þar?
„Maður er fastheldinn á matarvenjurnar. Við höfum alltaf haft hamborgarhrygg í matinn á páskunum. Seinni árin höfum við svo bætt við grilluðum humar í forrétt. Ætli fjölskyldan gangi ekki útfrá því að sami matseðillinn verði í boði“.
- Eru páskaeggin falin á þínu heimili?
„Páskaeggin eru ekki lengur falin á mínu heimili, börnin mín eru orðin of stór fyrir það. Við földum páskaeggin fyrir þeim þegar þau voru yngri“.