Páskaspjall: Hænurnar átu páskaeggið
Birgir Þórarinsson er varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Hann býr á Vatnsleysuströnd með fjölskyldu sinni að Minna Knarrarnesi. Hann svaraði nokkrum páskaspurningum Víkurfrétta.
- Hvernig á að verja páskunum?
„Heima við með fjölskyldunni. Útivist og vorverk í túnfætinum, setja skít á rabbabarann. Síðan er það páskamessan á páskadagsmorgun í Keflavíkurkirkju – hátíðleg og ómissandi“.
- Gefur þú mörg páskaegg eða færðu mörg egg?
„Gef konunni eitt. Fæ ekkert sjálfur. Saman gefum við svo yngsta syni okkar Hjalta eitt. Hinir tveir eru orðnir hálf fulloðnir og hafa fengið þá flugu í höfuðið að súkkulaði sé óhollt“.
- Á að ferðast innanlands eða utan?
„Mun að mestu dvelja heima við í sveitasælunni á Vatnsleysuströnd og taka á móti lóunni“.
- Hvernig páskaegg færðu þér?
„Ég gef konunni yfirleitt stærsta eggið frá Helga vini mínum í Góu. Borða það svo að stórum hluta sjálfur“.
- Hvað er í páskamatinn, einhverjar hefðir þar?
„Heimareykt hangiketslæri úr Mýrdalnum – einstök upplifun“.
- Eru páskaeggin falin á þínu heimili?
„Í fyrra faldi ég eitt páskaeggið í hænsnakofanum, það voru mistök þar sem lítið var eftir af því þegar yngsti sonurinn fann það. Hænurnar voru ánægðar en sonurinn ekki. Ég var því vinsamlega beðinn um það að fela þau ekki í ár og reikna með að standa við það“.