Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Paradís við Persaflóa
Flatmaga í sundlauginni. Feðgarnir ásamt hundinum Loka.
Fimmtudagur 25. desember 2014 kl. 11:02

Paradís við Persaflóa

Slökkviliðsmaðurinn Einar Már og fjölskylda búa í Qatar í Mið-Austurlöndum

Slökkviliðsmaðurinn Einar Már Jóhannesson hefur ásamt fjölskyldu sinni komið sér vel fyrir í í Qatar, smáríki í Mið-Austurlöndum, sem er eitt efnaðasta land heims. Fjölskyldan upplifir þar framandi menningu og steikjandi hita sem Íslendingar eiga erfitt með að afbera. Einar segir að það hafi alltaf heillað hann að vinna erlendis en hann starfar nú hjá olíurisanum Shell. Eftir tíu ár í starfi slökkviliðsmanns á Íslandi langaði hann að öðlast frekari reynslu í starfi og ákvað að halda á vit ævintýranna við Persaflóa.

„Ég fór að skoða hvaða möguleikar væru í boði og miðausturlönd voru álitlegur kostur sökum góðviðris og betri launakjara en gengur og gerist annars staðar í heiminum,“ Einar segir að ferlið hafi gengið eins og oft vill verða þegar leitað er eftir nýju starfi. Maður þekkir mann og að lokum fór það svo að vinur Einars gaf honum samband við slökkviliðsstjóra hjá Shell í Qatar. „Þetta gerist í september 2013 og í kjölfarið hófst eitt erfiðasta ráðningarferli sem ég hef upplifað, sem var viðtal eftir viðtal, læknisskoðanir og allskonar hindranir sem maður þurfti að komast yfir. Það var svo í desember sem ég fékk að vita að ég fengi stöðuna. Þetta gerðist því allt saman mjög hratt og í febrúar 2014 var ég fluttur út. Ég er mikill fjölskyldumaður og gat því ekki verið án fjölskyldunnar í allt of langan tíma. Þegar að ég sá fram á að þetta væri fjölskylduvænn staður fór ég á fullt í ferlið að fá þau út. Um miðjan júní vorum við svo sameinuð á ný,“ segir Keflvíkingurinn Einar en Rúna Lís Emilsdóttir kona hans og Einar Aron sonur þeirra fluttust þá til Qatar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Erlent vinnuafl í meirihluta

Landið Qatar saman stendur aðallega af einni stórri borg sem heitir Doha og nokkrum hverfum sem umliggja hana. Doha er uppfull af stórhýsum og glæsibílum líkt og úr einhverri bíómynd að sögn Einars. „Þar eru frábærar strendur og þar sem þetta er nú eyðimörk þá er fullt af sandi. Landið er ekki stórt eða með íbúafjölda upp á 2,1 milljónir. Þar af eru heimamenn einungis um 450 þúsund talsins. Annars er um að ræða svokallaða expats (erlent vinnuafl) sem búa og vinna í landinu. Uppbyggingu á þessu landi mætti líkja við tölvuleikinn Sim City því hér rísa stórhýsi og leikvangar á hverjum degi,“ segir Einar en sem dæmi má nefna að íbúum í landinu fjölgaði um heil fimm prósent í septembermánuði s.l.. Heimsmeistarakeppnin í fótbolta verður svo haldin í landinu árið 2022 og því eru miklar framkvæmdir í gangi.

Einar ásamt Faisal vini sínum, þegar sá síðarnefndi hélt upp á afmæli sitt á glæsilegri snekkju.

Heimamenn góðir og gjafmildir

Einar segist kunna vel við heimamenn sem séu gjafmildir góðhjartaðir.
„Qatarí, eins og þeir eru kallaðir hér, geta verið við fyrstu sýn frekar hrokafullir. Það er bara þeirra siður að vera í sínum Thobe (nokkurskonar kufl) með sólgleraugu innandyra og líta á mann eins og maður sé nýbúinn með síðasta Rolo molann þeirra. Á þessum tíu mánuðum sem ég hef búið hér, hef ég ennþá ekki hitt heimabúa sem er annað en frábær. Þeir vilja allt fyrir mann gera. Þú skalt ekki dirfast að reyna borga nokkurn skapaðan hlut þegar farið er með Qatarí einhvert, það er óvirðing við þá. Heima á klakanum berjumst við öll við að enda ekki með reikninginn í enda kvölds,“ segir Einar um heimamennina sem kallast Qatarí.

Félagarnir á C-vakt fyrir utan slökkvistöðina.

Slökkviliðsmenn frá öllum heimshornum

Einar starfar hjá stórfyrirtækinu Shell í stærstu eldsneytisvinnslu í heiminum. Um er að ræða svokallaða Gas To Liquid verksmiðju. Einar starfar í hóp sem kallast FIT, First Intervention Team, sem sjá um alhliða slökkvi- og björgunarvinnu á vinnusvæðinu. Þannig geta slökkviliðsmennirnir fengist við allt frá eldsvoðum, eiturefnaútkalla, sigbjörgun til sjúkraflutninga. „Við erum að fást við margar gerðir af útköllum og er þetta rosalega gott í reynslubankann hjá manni,“ Einar byrjaði sem almennur slökkviliðsmaður en eftir sjö mánaða starf fékk hann stöðuhækkun og er núna svokallaður Leading firefighter, sem er eins konar hópstjóri á sinni vakt. Hann segir það frábæra reynslu að vinna með fólki frá öllum heimshornum, en í hans hóp er fólk frá 11 mismunandi löndum.

Fjölskylduvæn menning

Einar og fjölskylda kunna ákaflega vel við sig í Qatar og eru afar þakklát fyrir að fá gullið tækifæri til að kynnast heiminum og annarri menningum. Þegar Einar á svo frí nýtur hann lífsins með fjölskyldunni. „Möguleikarnir eru endalausir hér í þessu magnaða landi. Við eigum 18 feta hraðbát ásamt vinafólki og það er ekki leiðinlegt að henda sér á sjóbretti eða að snorkla hérna í Persaflóanum því jú veðrið er allveg ágætt,“ segir Einar og hlær. „Qatarí menningin er rosalega fjölskylduvæn svo það eru alltaf einhverjar uppákomur fyrir okkur til að fara á, allt frá listsýningum, eyðimerkusafarí til Íþróttaviðburða og tónleika. Fyrir þá sem hér búa er yfirleitt mjög lágt gjald á alla viðburði, ef ekki ókeypis, því þeir vilja sjá sem flesta mæta.“

Kunna vel við skólakerfið

Rúna Lís kona Einars og Einar Aron sonur þeirra hafa komið sér vel fyrir með Einari í þessu ævintýri og gengur vel hjá þeim stutta í skólanum. „Hinn helmingurinn og sonurinn eru hæst ánægð, eins og er þá er Rúna heimavinnandi og er alveg að njóta þess í botn að vera eyðimerkurprinsessa. Einari Aroni gengur vonum framar í skólanum, enda bara snillingur þessi drengur þó að ég segi sjálfur frá. Skólinn hans, Compass International School, sem er breskur skóli með aðþjóðlegu ívafi, er tengdur við Cambridge á Englandi. Þetta er náttúrulega rosalega stórt stökk fyrir hann, nýtt land, nýr skóli, vinir o.fl. en hann er að tækla þetta alveg ótrúlega vel. Hann er mjög jákvæður og finnst þetta bara spennandi,“ Einar segir að það sé gaman að sjá hvað námsefnið í skólanum er allt öðruvísi  en á Íslandi. „Það er stór þáttur í því að þetta gengur svona vel hjá honum. Þau nota tölvur mjög mikið við lærdóminn og virðast finna tengingar á milli áhugamála þeirra við námsefni, frekar en að setja alla undir sama hatt,“ segir Einar.

Sólgleraugun bráðnuðu í bílnum - hitinn yfir 50°C

Veðrið í Qatar er auðvitað ekkert sem kallast getur eðlilegt á íslenskan mælikvarða. Hitinn getur verið óbærilegur og þá sérstaklega á sumrin, þar sem hitinn nær yfir 50°C. „Eftir mitt fyrsta sumar í miðausturlöndum verð ég bara að segja að það kom mér pínu á óvart hversu heitt 56°C er í raun og veru. Svo bætirðu 92% raka með og þá ertu kominn með hina fullkomnu blöndu til að þú verðir rennandi blautur á því að labba tíu skref milli bíla. Ég komst einnig að því að maður skilur ekki hluti sem manni þykir vænt um eftir í bílnum sínum að degi til. Máli mínu til stuðnings eru Ray Ban sólgleraugun mín núna orðin hluti af innréttingu bílsins. Þetta ástand varir í u.þ.b. tvo mánuði þar sem veðrið er erfitt, en hina tíu mánuðina er þetta paradís svo þetta er algjör andstæða við Ísland,“ segir Einar léttur í bragði.

Landið nánast lokað þegar Ramadan stendur yfir

Það eru fleiri hlutir en veðrið sem eru öðruvísi en við Íslendingar eigum að venjast. Mikill menningarmunur er á milli þessara tveggja þjóða. „Það skiptir öllu máli þegar að flutt er til annars lands að koma með opnum huga, enda kjósum við að vera hérna í þeirra landi. En jú menningarmunurinn er mikill. Það sem stendur helst upp úr er klárlega Ramadan, þá fasta múslimar, þ.e.a.s borða hvorki vott né þurrt frá sólarupprás til sólarlags í heilan mánuð. Á þessum tíma má ekki drekka eða borða á almenningsstöðum, ekki einu sinni í bílnum þínum, allir veitingastaðir eru lokaðir og allar verslanir eru lokaðar yfir daginn. Landið er í raun bara lokað yfir daginn. Þannig ef að fólk er að íhuga það að kíkja í heimsókn þá myndi ég skoða dagatalið og vera viss um að það sé ekki Ramadan á þeim tíma,“ segir Einar. Hann segir tilvalið að nýta þann tíma til þess að ferðast en fjölskyldan skellti sér einmitt til Sri Lanka á hátíðinni stóð. „Það var alveg geðveikt og það er alveg bókað að við förum aftur í ferðalag á þessum tíma árs, enda um að gera að nota tækifæðið á meðan að maður býr hérna og skoða sig um hérna megin á hnettinum.“ Einar segir að einnig séu nokkrir litlir hlutir sem reyni aðeins á þolrif Íslendinganna.
„Það er hægt að tönglast endalaust á veðrinu en það er bara svo margt annað, eins og maturinn og útiveran. En til að vera sanngjarn þá eru einfaldir hlutir eins og að fá bílpróf erfiðara en að fá nóbelsverðlaun, þú þarft háskólagráðu til að komast þurr af klósettinu því þeir eru með sturtuhausa sem þeir smúla upp um alla veggi. Ekki má gleyma aksturslagi þeirra sem er til háborinnar skammar, en það er alltaf hægt að finna að öllu og öllum, en í okkar tilviki er þetta eins og að búa í paradís,“ bætir hann við.

Styður Strákana okkar í Qatar

HM í handbolta verður haldið í Qatar í byrjun næsta árs. Einar ætlar að sjálfsögðu að skella sér á keppnina og styðja sína menn. „Hvað á maður að segja, þetta er nú búinn að vera meiri rússíbaninn. Að sjálfsögðu horfðum við á leikinn gegn Bosníu hérna heima og því miður þá náðum við ekki að vinna þann leik og hjá sumum (nefni engin nöfn) þá sást glitta í tár. Stemningin var það mikil enda hefði bara verið frábært að sjá litla Ísland taka þátt í stórmóti hérna í Qatar. En íslenska setningin „þetta reddast“ á alltaf við eins og kom í ljós. Ég hef þegar haft samband við HSÍ um að gera okkur sem hér úti búa (um 50 manns) að flottasta stuðningsmannahóp sem sést hefur í miðausturlöndum.“