Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

  • Páll Óskar - einkasafn poppstjörnu
  • Páll Óskar - einkasafn poppstjörnu
Fimmtudagur 5. febrúar 2015 kl. 09:24

Páll Óskar - einkasafn poppstjörnu

- Einkasafn söngvarans opnað almenningi

Rokksafn Íslands í Reykjanesbæ opnar fyrstu sérsýningu sína laugardaginn 14. mars.  Fyrsti listamaðurinn sem tekinn verður fyrir er stórsöngvarinn Páll Óskar Hjálmtýsson. Sýningin ber heitið „Páll Óskar - Einkasafn poppstjörnu“.  Hann fagnar einmitt 45 ára afmæli sínu þann 16. mars og er því tilvalið að opna yfirlitssýningu yfir líf hans og störf þessa ákveðnu helgi.

Páll Óskar er mikill safnari og mun sýningin vera sterkur vitnisburður um það. Meðal muna á sýningunni verða allir sérhannaðir búningar og fatnaður af tónleikum hans - allt frá Rocky Horror sýningu leikfélags MH frá árinu 1991 til dagsins í dag, handskrifaðar dagbækur hans, teikningar frá barnæsku, allar gull- og platínuplöturnar hans, plaköt frá tónleikum og dansleikjum, upprunaleg texta- og nótnablöð af þekktustu lögum hans og þannig mætti lengi telja. Persónulegir munir Palla verða ekki langt undan og gefst gestum meðal annars kostur á að skoða hinn fræga Nokia 6110 síma sem hann átti í ein 14 ár!

Sýningin verður gagnvirk. Gestir geta skellt sér í hljóðeinangraðann söngklefa, valið sér tóntegund og sungið Pallalögin í þar til gerðu hljóðveri og fengið upptökuna með sér heim.  Einnig geta gestir prófað að hljóðblanda nokkur vel valin Pallalög eftir upprunalegum hljóðrásum og gert eigin útgáfu af völdu lagi.

Þá geta gestir komið sér huggulega fyrir og horft á tónleikaupptökur, öll tónlistarmyndböndin, gamla sjónvarpsþætti og hlustað á gamla útvarpsþætti Palla eins og “Sætt og Sóðalegt” og “Dr. Love”.

Sýningin verður opnuð formlega þann 14. mars kl. 15:00 og eru allir hjartanlega velkomnir. Helgina 14.-15. mars er Safnahelgi á Suðurnesjum en þá helgi verður ókeypis inn á öll söfn á Suðurnesjum og verður opnun sýningarinnar „Páll Óskar - Einksafn poppstjörnu“ hluti af Safnahelgi.  Sýningarstjóri er Björn G. Björnsson.



Pallaball
Páll Óskar heldur alvöru Palla-ball þann 14. mars í Stapanum í tilefni 45 ára afmælis síns og opnunar á sýningunni „Páll Óskar - Einksafn poppstjörnu“. Öllu verður tjaldað til í glamúr og glæsileika og Páll Óskar mun stjórna stuðinu í Stapanum pásulaust alla nóttina! Bæði mun hann þeyta skífum af sinni alkunnu snilld og taka öll sín bestu lög þegar leikar standa sem hæst ásamt dönsurum sínum, bombum, blöðrum og tilheyrandi skrauti! Miðasala er hafin á hljomaholl.is.

Páll Óskar „Gordjöss“ með Jóni Ólafs
Sunnudaginn 15. mars mun Páll Óskar bæta um betur og halda tónleika í Bergi og honum innan handar verða Jón Ólafsson og Róbert Þórhallsson. Tónleikarnir verða blanda af uppistandi og tónleikum, en þessir tónleikar hafa gengið fyrir fullu húsi í Salnum í Kópavogi um nokkurt skeið. Miðasala er hafin á hljomaholl.is.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024