„Pabbi er aðeins betri en ég“
Ungur Reykjanesbæingur ætlar að verða atvinnukylfingur.
Kristján Jökull Marinósson er tólf ára og sem lítill hnokki var hann sífellt sveiflandi prikum og hinu og þessu eins og golfkylfu. Á þriðja aldursári fór hann svo fyrst í golf, sló tvö högg og púttaði svo beint ofan í holu. Þá var ekki aftur snúið og í dag er hann með 18 í forgjöf, sem þykir mjög gott fyrir strák á hans aldri.
Hefur átt fjögur golfsett
„Ég er búinn að eiga fjögur golfsett. Hef fengið nýtt sett eftir því hversu mikið ég hef stækkað,“ segir Kristján Jökull og bætir við að hann noti allar kylfurnar í pokanum. Það er greinilegt að þessi ungi kylfingur er vel að sér um kylfurnar því hann fer í það að fræða blaðamann aðeins um þær. „Það er erfiðara fyrir suma að nota „driverinn“ því hann er þungur og kylfuhausinn stór. En þeir eru misjafnir.“
Skemmtilegast að spila með pabba
Faðir Kristjáns Jökuls, lögreglumaðurinn Marinó Már Magnússon, hefur stundað golf í fjöldamörg ár og tekur soninn oft með sér. Kristján Jökull segir ekki marga foreldra taka börnin sín með. „Skemmtilegast við golfið er að spila með pabba. Hann er aðeins betri en ég.“ Þeir feðgar fóru saman um liðna páska til Englands með félögum sínum í Golfklúbbi Suðurnesja. Svo á hann einn golfvin og þeir spila töluvert saman tveir í Leirunni.
Þriggja ára með golfkerruna sína.
Byrjaði að æfa 4 ára
Einnig finnst Kristjáni Jökli skemmtilegt að spila og keppa og að það reyni á hann. „Það er erfiðast fyrir flesta að ná góðri sveiflu. Ef þú sveiflar vitlaust getur boltinn farið bara eitthvert út í loftið en ef sveiflan er rétt er hægt að stýra því hvert boltinn fer.“ Hann hefur ekki tölu á hversu mörgum mótum hann hefur tekið þátt í. „Ég hef a.m.k. tekið þátt í öllum meistaramótum síðan ég fór að æfa golf fjögurra ára og hefur oftast gengið mjög vel. Þegar ég keppi við unglinga víða að á landinu þá er ég svona meðalmaður en þegar ég er heima að keppa við sama aldurshóp er ég oftast í einu af þremur efstu sætunum.“
Með tvo bikara, sem eru aðeins hluti af verðlaunum.
Adam Scott og Birgir Leifur bestir
Kristján Jökull segist æfa helst á hverjum degi í öllum veðrum. Best sé að spila í logni og ekki miklum hita. Þá hefur hann sankað að sér töluverðu af golfbolum og -húfum. „Stærsta fyrirmynd mín er Ástralinn Adam Scott. Hann er með svo flotta sveiflu. Af íslenskum golfurum er Birgir Leifur Hafþórsson bestur. Ég stefni jafn langt og hann og langar að verða atvinnumaður,“ segir Kristján Jökull að endingu.