Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Pabba fannst ófært að dóttirin mætti í reiðstígvélum í kirkjuna
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
laugardaginn 14. mars 2020 kl. 07:33

Pabba fannst ófært að dóttirin mætti í reiðstígvélum í kirkjuna

„Ég fermdist 11. apríl 1976 í Keflavíkurkirkju, prestur var séra Ólafur Oddur Jónsson. Minningin úr athöfninni sjálfri er óljós. Við mættum í kjallara kirkjunnar þar sem við fórum í fermingarkyrtlana og gengum þaðan meðfram kirkjunni og inn um aðalinnganginn. Þetta var allt mjög fullorðins og hátíðlegt,“ segir Helga Jakobsdóttir þegar hún rifjar upp fermingardaginn sinn árið 1976.

„Mér fannst dagurinn í heild frábær og tók virkan þátt í undirbúningi hans með fjölskyldunni. Við bjuggum á Tjarnargötunni og veislan var haldin heima. Mig minnir að foreldrar mínir hafi keypt veitingar til að hafa í veislunni og að það hafi verið pottréttur eða svokallað stroganoff, hrísgrjón og hrásalat. Þetta fannst okkur framandi en það létti á undirbúningi og var gott. Síðan hafa örugglega verið kökur, kaffi og gos í glerflöskum. Ekki má gleyma að það var mjög flott að bjóða upp á sígarettur í veislum, þær voru í þar til gerðu boxi sem var á bakka ásamt statífi fyrir eldspýtustokk og að auki var öskubakki í stíl. Þessi bakki hafði heiðurssess á sófaborðinu í stofunni og svo blésu gestir reyknum yfir alla.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ekki mikill utanbókarlærdómur

Í fermingarfræðslunni hittust krakkanir í Kirkjulundi sem er gamalt hús við Kirkjuveg 22a sem átti stað í minningum Helgu. „Í þessu húsi bjuggu afi minn og amma en að þeim látnum seldu mamma og systur hennar kirkjunni húsið og það varð safnaðarheimili kirkjunnar. Margt minnti á tímann þegar ég var barn í þessu húsi þó því hafi verið breytt.

Við undirbúning fermingarinnar var notuð sérstök bók sem átti örugglega að leiðbeina okkur um kristnidóminn og lífsreglurnar, mér fannst erfitt að lesa hana og man ekki hvað stóð í henni. Við vorum saman þarna bekkjarsystkinin og séra Ólafur Oddur. Ég held að við höfum verið óþekk og yfirmáta málglöð í þessum tímum. Utanbókalærdómur var ekki mikill, ekki eins og hjá systkinum mínum. Ég held ég hafi lært Litlu biblíuna, Trúarjátninguna og Faðir vorið. Ég lærði enga sálma utanbókar. Í minningunni var söngurinn í athöfninni ekki skemmtilegur og ræða prestsins óskiljanleg.“

Fékk bjútíbox og heillaskeyti

Helga var ánægð með fermingarveislu sínu og fannst hún frábær. Í veisluna komu margir gestir, ættingjar og vinir foreldra hennar. „Það komu líka vinir mínir og við vorum eitthvað að kíkja til hvers annars, bekkjarfélagarnir, því við vorum öll að fermast á sama degi.

Fermingargjafirnar mínar voru hefðbundnar þessa tíma. Ég fékk úr og gullhring frá foreldrum mínum. Svefnpoka og matreiðslubók frá systkinum mínum. Síðan fékk ég ýmislegt annað en nefni til dæmis skartgripi eins og kross, rúnarstaf, armband og hring eftir Jens. Ég fékk líka bjútíbox og eitthvað af peningum. Send voru heillaskeyti, ég fékk mörg og fannst það skemmtilegt en þau virðast að mestu aflögð í dag.“ 

Ég var alsæl með fermingardressið en ekki pabbi

Helga segir ótrúlega gaman að minnast fermingartískunnar sem þá var. „Ég fékk að velja það sem mér fannst flottast og keypt var buxnapils, rúllukragabolur, kápa og kúrekastígvél. Ég kom alsæl heim úr Reykjavík, við mamma höfðum farið á milli búða og valið þetta dress. Pabbi minn var ekki eins sáttur og við fórum í annan fataleiðangur og þá var keypt dragt en það er jakki, pils og buxur, blússa í stíl og skór. Pabba fannst ófært að dóttirin mætti í reiðstígvélum í kirkjuna og unglingurinn átti ekki að klæðast óléttukápu. Samkvæmt hefðum og venjum fékk ég sálmabók, hvítan hálsklút til að hafa undir kyrtlinum, hvíta hanska og blúnduklút inn í sálmabókina.“

Erfitt að sofna kvöldið fyrir fermingu

„Ég man að ég átti mjög erfitt með að fara að sofa kvöldið fyrir ferminguna því mér fannst ekkert vera tilbúið heima fyrir veisluna en hafði litlar áhyggjur af athöfninni í kirkjunni.

Ég fór í hárgreiðslu eldsnemma á fermingardaginn. Ég hafði safnað hári í þrjú ár til að getað farið í greiðslu fyrir ferminguna. Það var blásið á mér hárið og sett í krullujárn því ég ætlaði að hafa slöngulokka. Ég er með mjög lint og þunnt hár, svo greiðslan lak mjög hratt úr þó notað hafi verið hárlakk af stífustu gerð. Sett var hvítt nellikublóm í hárið sem tíðkaðist líka á þessum árum. En í vikunni eftir ferminguna fór ég og lét klippa hárið stutt og hef eiginlega ekki verið með svona sítt hár síðan.“

Komin í fullorðinna manna tölu eftir fermingu

Altarisgangan var þá að sögn Helgu ekki í fermingarathöfninni sjálfri heldur kvöldið eftir. Hún segir að það hafi verið mikið afslappaðri athöfn og fjölskyldan hafi notið þess að koma í kirkjuna og sameinast uppi við altarið. Eftir athöfnina var svo sest við borðstofuborðið í stofunni heima og spjallað. „Ég er yngst systkina minna og nú vorum við öll komin í fullorðinna manna tölu. Aldrei kom annað til greina en að láta ferma sig í kirkjunni og maður minntur á að allir eigi að staðfesta skírnarheitið sitt því að eins og segir í barnabæninni: „Í guðsóttanum gef þú mér að ganga í dag svo líki þér“.“