Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Öskubuska gerir lukku
Fimmtudagur 2. nóvember 2006 kl. 11:42

Öskubuska gerir lukku

Nýr söngleikur; Öskubuska, var frumsýndur s.l. laugardag í Frumleikhúsinu, í samstarfi við Leikfélag Keflavíkur, en verkið var byggt á kvikmyndinni ,,Cinderella Story”, sem naut mikilla vinsælda meðal ungdómsins fyrir tveimur árum þegar hún kom út. Hópurinn samanstendur af áhugaleikurum, krakkarnir eru frá 14-25 ára sem koma að sýningunni.

Leikritið er nútímauppsetning á ævintýrinu um Öskubusku og stendur sýningin yfir í tvo tíma. Það fjallar um Söru, sem misst hefur föður sinn og býr með stjúpmóður sinni og tveimur stjúpsystrum. Þær koma illa fram við hana og gera allt í þeirra valdi til þess að eyðileggja drauma hennar og vonir, en hennar helsti draumur er að komast inn í Listaháskólann og verða hamingjusöm. Sara kynnist strák á netinu; Davíði, sem virðist sannkallaður draumaprins. Þau geta talað saman um þeirra innstu tilfinningar og þegar þau komast að því að þau eru í sama skóla, ákveða þau að hittast. Nokkur vandræði myndast upp úr því, sem leysast þó í endann, eins og í ævintýrinu um Öskubusku

Fullt af áhugaverðum karakterum eru í lífi Söru og Davíðs og koma mikið við sögu í leikritinu, en þau setja skemmtilegan blæ á framgang sögunnar. Má þá helst nefna besta vin Söru, sem er mjög misheppnaður á fyndinn hátt og stjúp – móður og systur hennar sem eru virkilega ýktir karakterar. Flest atriðin eru því lífleg og oftast mikið að gerast á sviðinu. Skemmtilegt var að sjá að tónlistin var fjölbreytileg, en íslenskur texti var búinn til við ýmis erlend lög, ásamt því að notuð voru vinsæl íslensk dægurlög. Söngurinn var til fyrirmyndar og er eftirminnilegasta söngatriðið án efa flutningur Þórdísar Birnu Borgarsdóttur á gamla Queen laginu ,,The Show Must Go On”, en gæsahúðin fór hvergi meðan á öllu atriðinu stóð. Dansatriðin komu virkilega á óvart, og var greinilega lagt upp úr því að hafa þau vönduð og vel æfð, sem kom rækilega til skila.


Augljóst er að mikil vinna hefur verið lögð í verkið, þar sem allir leikarar, söngvarar og dansarar voru með allt sitt á hreinu á sviðinu og útkoman var virkilega skemmtileg sýning í alla staði. Breiður áhorfendahópur virtist skemmta sér konunglega, hvort sem um væri að ræða fullorðna eða leikskólakrakka. Leikhópurinn var stútfullur af hæfileikaríkum krökkum á öllum sviðum og skiluðu allir leikarar flutningi sínum af miklum sóma. Ekki er nokkur vafi á því að þarna leynast framtíðarskemmtikraftar sem eiga eftir að gera það gott. Einnig má ekki gleyma að hrósa leikstjórum sýningarinnar; Guðnýju Kristjánsdóttur, Gunnheiði Kjartansdóttur og Írisi Dröfn Halldórsdóttur fyrir frábært framtak, en uppsetning söngleiks er vandað verk og tímafrekt. Það er því góð ástæða fyrir því að Suðurnesjamenn fjölmenni á þessa stórskemmtilegu fjölskyldusýningu.

 

Valgerður Björk Pálsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024