Orð skipta máli
Vilja efla orðaforða barna í fjölmenningarsamfélagi
Leikskólinn Völlur hefur gefið út myndbönd með yfirskriftinni Orð skipta máli. Aðalmarkmið þessa verkefnis er að efla orðaforða barna en myndböndin eru tileinkuð foreldrum og aðstandendum þeirra. Völlur er fjölmenningarleikskóli en í leikskólanum eru 28 þjóðerni, bæði börn og starfsfólk. Um 70 prósent barnanna eru tví- eða fjöltyngd og tæplega helmingur kennara eru með íslensku sem annað tungumál.
Völlur fékk styrk frá Nýsköpunar- og þróunarsjóði Reykjanesbæjar til að vinna verkefnið og er það von Huldu Bjarkar Stefánsdóttur, leikskólastýru Vallar, og Heiðrúnar Scheving Ingvarsdóttur, verkefnastjóra fjölmenningar á Velli, að myndböndin dreifist sem víðast. Þær Hulda og Heiðrún segja rannsóknir sýna að fátæklegur orðaforði barna geti haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd þeirra og framtíð, því skipta orð máli. Þessar einföldu athafnir að tala við barn, að syngja með því og lesa fyrir það geta haft mikil áhrif.. Rannsóknir sýna að barn sem fær mikla málörvun í fjölbreyttum aðstæðum á meiri möguleika á að takast á við þær áskoranir sem lífið mun bjóða upp á í framtíðinni,“ segir Heiðrún.
Þær Hulda og Heiðrún segjast spenntar fyrir framhaldi verkefnisins en ný stefna þess tengist leiklist með börnum. Þá er meðal annars stefnt að því að setja upp svið í leikskólanum. „Þannig að Orð skipta máli, verkefnið okkar, heldur áfram en færir sig inn á ný svið. Því orðin eru alls staðar,“ segir Hulda.
Heiðrún starfaði um skeið hjá Menntamálastofnun. „Ég sá það svo greinilega þegar ég var að ferðast um landið á vegum Menntamálstofnunar að ójöfnuður meðal barna er staðreynd í íslensku samfélagi. Barn sem býr í litlu þorpi úti á landi er oft ekki að fá sömu þjónustu og barn sem býr í stærra sveitarfélagi. Jöfnuður á meðal barna hefur alltaf verið mér hugleikinn og það er það sem drífur mann áfram í að vinna svona verkefni. Maður vill náttúrulega öllum börnum það besta. Að fræða foreldra um mikilvægi þess að barn búi yfir ríkulegum orðaforða er á vissan hátt ákveðið skref í átt að jöfnuði“ segir Heiðrún.
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi á Fræðslusviði Reykjanesbæjar, segir 29 prósent barna á leikskólum Reykjanesbæjar vera með íslensku sem annað tungumál. Þá hefur Reykjanesbær bætt inn stöðugildum á leikskóla bæjarins og segir Ingibjörg það hafa verið gert til þess að „halda utan um þennan hóp barna og vinna með íslenskunámið þeirra“. Ingibjörg bætir við að það sé „sífellt verið að skoða hvernig hægt sé að mæta þessum hópi barna, sérstaklega hvað varðar að styrkja íslensku kunnáttu þeirra og er þá verið að horfa á orðaforða“.
Aðspurðar hvort þeim finnist að eitthvað mætti gera betur til að koma til móts við fólk af erlendum uppruna í Reykjanesbæ segir Heiðrún: „Það eru allir að reyna að gera sitt besta en persónulega finnst mér það ekki vera nógu sýnilegt, sem má kannski tengja við nýafstaðnar kosningar og lélega kjörsókn. Það er spurning hvort upplýsingastreymi til erlendra íbúa sé að skila sér. Þetta er eitthvað sem við hugsuðum út í áður en við unnum myndbandið þ.e. hvernig við ætluðum að koma þessum mikilvægu upplýsingum til foreldra þannig að árangur náist.“ Hulda tekur undir með henni og bætir við: „Það er mikilvægt að hafa fjölbreytileikann sýnilegan, að það sé ekki bara í orði heldur líka á borði.“
Myndböndin má sjá á íslensku, ensku, pólsku og arabísku í gegnum þennan hlekk:
https://www.youtube.com/channel/UCMxz30S45yNKwdl8zXLYO-A