Opus leikur á Duus í kvöld
Söngkvartettinn Opus mun halda kabaretttónleika í Duushúsum í kvöld.
Liðsmenn Opus, þau Valgerður Guðnadóttir sópran, Rósalind Gísladóttir mezzó-sópran, Einar Örn Einarsson tenór og Gunnar Kristmannsson barítón, munu þar flytja lög úr ýmsum áttum. Vignir Þór Stefánsson leikur undir á píanó.
Á efnisskránni eru þekktar perlur úr söngleikjum og kvikmyndum meðal annars Summertime, Smoke gets in your eyes, I got rhythm og Tears in heaven, svo eitthvað sé nefnt. Útsetningar á lögunum eru afar vandaðar, en hluti prógrammsins er með djassívafi.
Sönghópurinn var stofnaður í vor og hafa þau haldið fjölmarga tónleika um allt land, m.a. á Hótel Borg þar sem þau fengu afar góðar viðtökur. „Fólk hefur skemmt sér vel á tónleikunum og bókstaflega verið að dilla sér í sætunum,“ sagði Rósalind í samtali við Víkurfréttir og bætti því við að þau hafi fengið mjög góða dóma hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins. „Svo stefnum viðað á fara í tónleikaferð um Norðurlöndin næsta vor, en við vonumst líka til að koma út plötu fyrir jólin.“
Meðlimir Opus hafa allir lokið 8. stigi í söng. Gunnar, Rósalind og Valgerður stunduðu öll nám við söngskólann í Reykjavík á sama tíma þar sem Gunnar nam söng hjá Guðmundi Jónssyni og Bergþóri Pálssyni en Rósalind og Valgerður hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur. Einar lærði hjá Guðmundu Elíasdóttur, Má Magnússyni og Einari Sturlusyni. Þess má geta að Einar starfaði sem organisti og kórstjóri í Keflavík.
Tónleikarnir verða eins og áður sagði í kvöld kl. 20:30 í Duus. Miðaverð er 1200 og verður selt inn við innganginn.