Opnar sýningu og heldur námskeið í Bókasafninu
Teiknarinn og söngkonan Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir er með mörg járn í eldinum um þessar mundir. Lóa Hlín gerir teiknimyndasögur undir nafninu Lóaboratoríum og syngur með hljómsveitinni FM Belfast sem hún stofnaði ásamt Árna Rúnari árið 2005.
Í byrjun janúar var sett upp verk eftir hana í Borgarleikhúsinu. „Leikkonan María Heba Þorkelsdóttir og leikhópurinn Sokkabandið komu til máls við mig og spurðu hvort ég vildi taka þátt í verkefni með þeim og skrifa leikrit upp úr myndasögunum mínum. Ég sagði já og svo hófust hugmyndavinna og handritaskrif.“ Leikritið fjallar um samskipti, mæðgur og systur sem eiga ekki frábær samskipti. Ákveðin atburðarrás fer svo af stað og konurnar neyðast til að kynnast betur. Lóa Hlín er strax komin með fleiri leikverk í kollinn en segir það allt á hugmyndastigi.
Það er í mörgu að snúast hjá listakonunni og þegar hún er innt eftir því hvernig gangi að sameina myndlistina, tónlistina, leikhúsið og móðurhlutverkið stóð ekki á heiðarlegum svörum. ,,Þetta gengur misvel. Stundum vinn ég allt of mikið. Ég er einmitt í þessum töluðu orðum að reyna að greiða úr flækjum sem ég hef sjálf skapað,“ segir Lóa Hlín kímin á svip.
Það er ekki eingöngu leikhúsið sem á allan hug Lóu um þessar mundir en sýning á teiknimyndasögum hennar opnar í Bókasafni Reykjanesbæjar fimmtudaginn 8. mars. Sýningin heitir Gamandrama og verður í unglinga- og teiknimyndasöguhorni safnsins.
„Ég hef verið með svipaða sýningu í Borgarbókasafninu í Grófinni. Þar fékk ég líka að leggja undir mig veggplássið í myndasögudeildinni.“
Lóa Hlín lærði myndskreytingu við Parsons í New York en hún byrjaði ung að teikna eða frá því að hún uppgötvaði að það væri hægt eins og hún segir sjálf. Hún hefur verið atvinnumanneskja síðan árið 2005 en eftir hana hafa komið út þrjár bækur: Alhæft um þjóðir (2009), Lóaboratoríum (2014) og Lóaboratoríum: Nýjar rannsóknir hafa mögulega leitt eitthvað í ljós (2015). Myndasögur eftir hana hafa komið út víða, m.a. í Grapevine, ÓkeiPiss, Mannlífi og Very Nice Comics.
„Elsta myndasagan í mínum fórum er síðan ég var átta ára og fór á námskeið þar sem við áttum að skrifa myndasögur. en ég byrjaði að vinna við þetta meðfram öðrum verkefnum árið 2005.“
Í kjölfar sýningarinnar í Bókasafni Reykjanesbæjar mun Lóa Hlín bjóða upp á námskeið í teiknimyndasögugerð í safninu laugardaginn 17. mars milli klukkan 12.00 og 16.00. Námskeiðið er opið fyrir alla og kostar ekkert, það eina sem þarf er að skrá sig á námskeiðið.
Lóa Hlín hefur margsinnis verið með námskeið af þessu tagi, m.a. í Myndlistaskóla Reykjavíkur, Listaháskóla Íslands, Bókasafni Kópavogs, í ýmsum grunnskólum, þar á meðal í Garði í tengslum við verkefnið Skáld í skólum. „Það eina sem fólk þarf til að koma á námskeiðið er áhugi og almenn forvitni. Ímyndunarafl sakar ekki. Teiknikunnátta er góð en hún er ekki nauðsynleg. Ég hvet alla til að koma, bæði til að prófa eitthvað nýtt og njóta þess að vera innan um teiknandi fólk. Það er svo huggulegt,“ segir Lóa Hlín að lokum.
Áhugasamir geta fengið allar nánari upplýsingar á heimasíðu Bókasafns Reykjanesbæjar.