Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Opnar sýningu á Garðskaga
Þriðjudagur 18. október 2005 kl. 10:20

Opnar sýningu á Garðskaga

Garðar Jökulsson opnar sýningu á myndlist sinni í Byggðasafninu á Garðskaga þann 20. þessa mánaðar. Sýningin mun standa í hálfan mánuð.

Garðar er fæddur árið 1935 í Reykjavík og hefur alla tíð búið á höfuðborgarsvæðinu. Áhugi hans á myndlist sér í lagi landslagsmálverkinu, vaknaði snemma og hefur hann sótt flestar myndlistarsýningar og fylgst með þróun myndlistar frá því í kringum 1950 – eða í ríflega hálfa öld. Ekki eru þó nema sautján til átján ár síðan hann fór sjálfur að mála í frístundum og er algjörlega sjálfmenntaður í þeim fræðum. Því eins og Garðar segir sjálfur, “er býsna erfitt að kenna, hvað þá heldur að læra, hinn “stóra sannleik” í listum”. Garðar sækir efnivið í landslag og náttúru Íslands.

Frá árinu 1995 má segja að Garðar hafi helgað sig málverkinu. Hann hélt sína fyrstu sýningu í Blómavali við Sigtún, árið 1984 og síðan hefur hann haldið fjölmargar sýningar, m.a. í Ásmundarsal, Listhúsinu við Engjateig, Eden, hjá ÁTVR í Kringlunni, Domus Medica og Landsbankanum Laugavegi 77. Hann hefur sýnt verk sín í Garðabæ, Grindavík, Kópavogi, Garðyrkjuskólanum í Hveragerði og víðar, þannig að hann hefur að jafnaði haldið tvær stórar sýningar árlega.

Garðar hefur einnig tekið þátt í handverkssýningum í Laugardalshöll, handverksmörkuðum og tekið þátt í samsýningum. Síðustu sex til sjö árin hefur hann farið með litla sýningar á fjölmarga vinnustaði, stofnanir og stórmarkaði hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Eins og sjá má af þessari upptalningu sýnir Garðar málverk sín á óhefðbundnum sýningarstöðum þar sem almenningur gengur um garð, enda segir hann: “Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að það eigi að færa listina að fólkinu”.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024