Opna kaffihús til styrktar líknar- og félagsmálum í Sandgerði
Ákveðið hefur verið að opna kaffihús í elsta húsi bæjarins, Efra Sandgerði, nú um helgina en þar munu nokkur félagasamtök í bænum vera með fjáröflun í formi kaffisölu og vöffluveitinga.
Sárlega hefur vantað þetta innlegg í bæjarflóruna og nú eftir mikla eftirspurn, bæði innlendra og erlendra ferðamanna í sumar, þá hefur verið ákveðið að gera tilraun og hafa opið núna á laugardag og einnig sunnudag frá klukkan 14:00 til 17:00.
Á boðstólnum verður kaffisopi og nýbakaðar girnilegar vöfflur með sultu og ekta íslenskum þeyttum rjóma. Allur ágóði af sölunni rennur til líknar- og félagsmála í bæjarfélaginu.
Umferð ferðamanna hefur aukist mikið um Sandgerði með tilkomu Ósabotnavegar og sárlega hefur vantað kaffihús og veitingahús fyrir ferðafólk.
Starfsfólkið í gallerí Listatorgi þurfa mjög oft að vísa ferðamönnum yfir í næstu bæjarfélög, þegar spurt er um kaffihús eða veitingastað. Það dugir ekki lengur og því ætla félagsmenn Listatorgs að ríða á vaðið um helgina og bjóða upp á kaffiveitingar að góðum íslenskum sið fyrir gesti og gangandi.
Allir hjartanlega velkomnir í Efra Sandgerði, elsta og fallegasta húsið í bænum okkar, segir á samfélagsvefnum 245.is í Sandgerði og þar er einnig birt þessi fallega mynd af Efra Sandgerði sem Reynir Sveinsson tók í desember 2009. Efra Sandgerði er hins vegar byggt 1883.