Opinn dagur á Ásbrú á morgun
Hinn árlegi Opni dagur á Ásbrú verður haldin í þriðja sinn á sumardaginn fyrsta þann 22. Apríl næstkomandi frá kl 12.00 til 16.00. Í fyrra mættu um 15. þúsund manns og skemmtu sér konunglega í hreint út sagt frábæru veðri.
Glæsileg dagskrá verður í boði og nokkuð ljóst að allur aldur ætti að finna eitthvað við sitt hæfi.
Nemendur og starfsfólk Keilis mun kynna fjölbreytt námsframboð í framtíðarhúsnæði sínu s.s. nám í Háskólabrú, Heilsu- og uppeldisskólanum, Orku- og tækniskólanum og Flugakademíunni. Þar verður fjörug dagskrá þar sem Orku- og tækniskóli Keilis kynnir lausnir í vistvænu eldsneyti ss. grillaðar pylsur á metangasgrilli og breytingu bíla í metanbíla, heimatilbúið eldgos ásamt kreppunammi verður til í efnafræðistofunni, glænýr róbóti verður til sýnis og hönnunarverkefni nemenda þar sem vélmenni leysa hinar ýmsu þrautir ofl.
Fyrirtæki á Ásbrú munu einnig kynna starfsemi sína en þar er fjölbreytt flóra hinna ýmsu þjónustufyrirtækja og sprotafyrirtækja. Nokkur fyrirtæki munu einnig vera með opið hús hjá sér og einnig bjóða nokkur uppá tilboð í tilefni dagsins. Sjá frekari dagskrá.
Fyrir utan skólann verða stærsti slökkvibíll landsins, körfubíll og sjúkraflutningabíll til sýnis. Landhelgisgæslan mætir á svæðið kl. 14.00 og tekur æfingu. Að henni lokinni mun hún svo lenda og verður þyrlan til sýnis almenningi. Þyrla Norðurflugs býður uppá þyrluflug gegn vægu gjaldi. Frekari dagskrá Keilis má sjá á www.keilir.net
RISA karnival stemmning verður haldin í kvikmyndaveri Atlantic Studios þar sem allir krakkar ættu að geta skemmt sér konunglega ásamt foreldrum. Draugahús ásamt Eurobungy rólunni, teygjubraut ofl. er spennandi fyrir eldri krakkana á meðan hoppukastali, þrautabraut, andlitsmáling, blöðruskúlptúrar heillar þau yngri. Fjóla vinkona Skessunar ásamt Kela Keflvíkingi og Njarðvíkurljóninu kíkja í heimsókn og trúðar og fígúrur verða á staðnum. FRÍTT verður í öll tækin!
Hjálpræðisherinn mun vera með kaffi og kökusölu svo eldra fólkið geti sest niður og fengið sér kaffi meðan börnin leika sér. Hjálpræðisherinn mun einnig vera með pokamarkað þar sem hægt verður að fylla poka af barnafötum fyrir litlar 1000 kr. Sprell mun selja candy floss og fleira góðgæti í anda karnivalstemmningarinnar.
Sögurúta um Ásbrú verður í boði þar sem keyrt verður um svæðið með leiðsögn og sagt frá lífinu á vellinum á tímum Varnarliðsins og frá þeirri uppbyggingu sem hefur átt sér stað frá brotthvarfi þess árið 2006. Rútan fer frá Andrews leikhúsi þar sem einnig verður ljósmyndasýning í gangi.
Í og við Íþróttahúsið verður nóg af að taka enda mikið skemmtilegt í gangi allan daginn þar. Golfklúbbur Suðurnesja verður með nándarholukeppni, Hafnarboltafélag Reykjavíkur verður með opna æfingu á hafnarboltavellinum og ýmis dagskrá í gangi inní húsi ss. hreystikeppni stjórnmálaflokka í Reykjanesbæ sem vert er að kíkja á. Almenningi gefst kostur á að spreyta sig í hinum ýmsu íþróttum.
Akstursíþróttafélag Suðurnesja verður með dagskrá allan daginn, mótorhjólasýning, fornbílasýning, gítarsýning, kennsla í graffítí listaverkagerð, innileikjagarður fyrir börnin og margt fleira í boði þennan dag, sumardaginn fyrsta, á Ásbrú frá kl. 12.00 – 16.00/17.00.
Ítarlegri dagskrá er hægt að nálgast hér.
Verið velkomin á opin dag á Ásbrú, í blíðskapar veðri, sumardaginn fyrsta þann 22. Apríl nk. frá kl. 12.00-16.00.