Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Óp-hópurinn með tónleika í kvöld
Miðvikudagur 9. febrúar 2011 kl. 09:39

Óp-hópurinn með tónleika í kvöld

Óp-hópurinn er sönghópur samansettur af ungum óperusöngvurum sem hefur nú starfað í rúmt ár og núþegar haldið nærri 20 tónleika bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og úti á landi. Næstu tónleikar þessa hóps verða í Salnum í Kópavogi í kvöld kl. 18:00.

Efnisskráin að þessu sinni samanstendur af atriðum úr mjög vel þekktum óperum sem og lítt þekktum óperum. Meðal annars má nefna atriði úr óperum eftir Mozart, atriðum úr Carmen eftir Bizet, Normu eftir Bellini, Spaðadrottningunni eftir Tchaikovsky, La Favorita eftir Donizetti og svolítið nútímalegra úr Porgy og Bess eftir Gershwin.

Til gamans má geta að þrír af sex söngvurum sem syngja í kvöld tengjast Suðurnesjum á einn eða annan hátt. Bragi Jónsson bjó lengi vel hjá foreldrum sínum í Sandgerði en hann kláraði grunnskólagöngu sína í Sandgerðisskóla og gekk svo í gegnum Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Bylgju Dís þarf nú varla að kynna fyrir Suðurnesjamönnum en hún kennir söng í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Rósalind er sú þriðja en hún býr í Árbænum en bjó áður í Grindavík í 5 ár. Þar tók hún uppá því að kenna við Tónlistarskóla Grindavíkur og hefur kennt þar í níu ár.

Tónleikarnir taka um það bil klukkustund í flutningi en miðaverði er stillt í hóf og kostar einungis 1500 krónur inn. Tilgangurinn með starfsemi Óp-hópsins er að auka samvinnu söngvaranna og gera þeim kleift að flytja samsöngsatriði úr óperum. Tónleikaformið er óhefðbundið að því leiti að hópurinn hefur kappkostað að færa tónleikaformið eins nærri óperuforminu og auðið án mikils tilkostnaðar. Því mega tónleikagestir búast við leiknum atriðum úr óperum auk þess sem ýjað er að búningum og sviðssetningu eins og hægt er. Hópurinn kom fram í Duus síðasta vetur og má sjá þá frétt með því að smella hér.

Í hópnum eru þau Bragi, Erla Björg, Magnús, Antonía, Hörn, Rósalind, Jóhanna og Bylgja Dís, (talið frá vinstri á myndinni).

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024