Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Öndunin skiptir máli í hlaupum
Guðbjörg með vinkonu sinni, Unni Þorláksdóttur. Myndin var tekin eftir Kaupmannahafnar maraþon um síðustu helgi.
Sunnudagur 29. maí 2016 kl. 20:23

Öndunin skiptir máli í hlaupum

- Guðbjörg Jónsdóttir gefur góð ráð fyrir hlaupasumarið

„Best er að byrja rólega. Það er lykilatriði að fólki líði vel á meðan það hleypur og þá skiptir öndunin miklu máli,“ segir Guðbjörg Jónsdóttir, hlaupaþjálfari sem trúir því að allir geti hlaupið og liðið vel á meðan. Ungir sem aldnir eru búnir að reima á sig hlaupaskóna og Guðbjörg gefur hér góð ráð til þeirra sem eru að stíga fyrstu hlaupaskrefin þetta sumarið. Guðbjörg segir gott viðmið á hlaupunum að verða ekki of móður, þá þurfi fólk að hægja á sér og einbeita sér að því að ná dýpri öndun. „Best að byrja á því að hlaupa tvisvar til þrisvar sinnum í viku og hlaupa þá rólega í 10 til 30 mínútur í senn og hafa hvíldardag á milli hlaupa. Þeir sem eru algjörir byrjendur og hafa ekki verið að stunda neina líkamsrækt síðasta hálfa árið, ættu að byrja á því að hlaupa tvisvar sinnum í viku. Fólk sem er lengra komið og í góðu líkamlegu formi getur hlaupið þrisvar sinnum í viku,“ segir hún.

Gott að æfa með hóp
Sumum finnst betra að hlaupa einir og öðrum finnst betra að vera í hlaupahóp. Guðbjörg segir að í flestum tilvikum sé betra að vera í hlaupahóp til að halda sér vel við efnið. „Svo er félagsskapurinn svo skemmtilegur og hvetjandi. Það eru að minnsta kosti tveir hlaupahópar í Reykjanesbæ; 3N og HFCN.“ 3N hittist á þriðjudögum og fimmtudögum klukkan 18 og klukkan 10 á laugardögum við Vatnaveröld í Reykjanesbæ. HFCN stendur fyrir HlaupaFitCampNámskeið og er fyrir byrjendur og aðeins lengra komna. Námskeiðin eru fjórar vikur í senn og hefst það næsta 7. júní. Hópurinn leggur af stað frá K-húsinu við Hringbraut, við fótboltavöllinn. „Á námskeiðunum er lögð áhersla á að hlaupa og líða vel á meðan ásamt því að gera styrktaræfingar,“ segir Guðbjörg. Hægt er að skrá sig á námskeið hjá lífsstílsleiðbeinendum í FitZoneKeflavík í K-húsinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Almenningshlaup eru hvetjandi
Fjöldi almenningshlaupa fara fram hér á landi yfir sumartímann, um allt land. Guðbjörg segir það virkilega skemmtilegt og hvetjandi að taka þátt í hlaupum. „Mjög gaman er að fara til dæmis í Kvennahlaupið 4. júní, Color Run, 11. júní en það eru 5 km, Miðnæturhlaupið 23. júní þar sem hægt er að velja um 5, 10 eða 21,1 km. Svo er auðvitað Reykjavíkurmaraþonið 20. ágúst þar sem hægt er að velja um að hlaupa 3 km, 10 km og hálft eða heilt maraþon.“ Guðbjörg bendir á að allar nánari upplýsingar um hlaup séu á vefnum hlaup.is.

Ekki gefast upp
Það er draumur margra að gera hlaupin að lífsstíl en það getur reynst erfitt. Besta ráð Guðbjargar við því er að fólk breyti hugsunarhættinum. „Margir sjá hlaup fyrir sér sem eitthvað sem verður að gera hratt og þá gefst fólk fljótt upp. Það virkar miklu betur að hlaupa hægar og einbeita sér að því að anda dýpra og líða vel á meðan hlaupið er og hafa gaman af.“