Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ómetanlegt að hitta fólk
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 2. september 2023 kl. 04:43

Ómetanlegt að hitta fólk

Þórey Óladóttir, leikskólakennari á leikskólanum Tjarnarseli í Keflavík, er með stefnuna á tónleikana Í Holtunum heima á Ljósanótt. Þar mun eiginmaðurinn stíga á stokk með Breiðbandinu en sveitin er tuttugu ára um þessar mundir. Þórey segir bestu minningar Ljósanætur tengjast því þegar vinir koma saman og ómetanlegt að hitta fólk sem maður hafi ekki hitt lengi.

Hvernig varðir þú sumarfríinu?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég fór til Tékklands, nánar tiltekið til Prag í nokkra daga ásamt eiginmanninum. Hafði reyndar farið þangað tvisvar áður með leikskólanum Tjarnarsel sem ég vinn í og var svo heilluð að ég varð að fara aftur og skoða meira og upplifa. Fór í sumarbústað með góðum vinum eina helgi en annars var ég mikið utanhúss og naut veðurblíðunnar í núvitund við garðvinnu, gönguferðir og slökun.

Hvað stóð upp úr?

Pragferðin var algjör dásemd, sá svo margt fallegt og safnaði minningum og upplifunum.

Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?

Ég held að veðrið hafi komið mest á óvart í sumar hér á Suðurnesjunum, magnað að hafa sól og blíðu marga daga í röð.



Áttu þér uppáhaldsstað til að heimsækja innanlands?

Já, á alveg eftir að fara austur og þá langar mig mest til að sjá Stuðlagil í Jökuldalnum og auðvitað alla hina fallegu staðina fyrir austan.

Hvað ætlar þú að gera í vetur?

í vetur ætla ég að fara á olíumálunarnámskeið hjá MSS, fara eina helgi í Húsafell og jafnvel út fyrir landsteinana.

Hvernig finnst þér Ljósanótt?

Mér finnst Ljósanótt dásamleg hátíð sem markar upphaf að haustinu, þeim notalega tíma. Gaman að sjá hvað það eru margir og fjölbreyttir viðburðir frá ári til árs og mikið af hæfileikaríku heimafólki og öðrum sem koma hingað sem leggja sitt að mörkum til að hátíðin sé jafn frábær eins og raun ber vitni.

Hvaða viðburði ætlar þú að sækja á Ljósanótt?

Ég ætla að fara á fimmtudagskvöldinu á opnun sýninga, á föstudagskvöldinu er stefnan tekin á tónleikana Í Holtunum heima þar sem eiginmaðurinn mun stíga á stokk ásamt Breiðbandinu og fleiri tónlistarmönnum og á laugardeginum er það árgangagangan ásamt besta árganginum frá ‘73 sem fagnar 50 árunum. Þetta er svona það helsta en örugglega verða fleiri viðburðir sem fanga athyglina.

Hver er besta minningin þín frá Ljósanótt?

Bestu minningar mínar frá Ljósanótt eru tengdar þeim skiptum sem við vinirnir höfum komið saman í súpu heima hjá vinahjónum okkar á laugardeginum en auðvitað er líka ómetanlegt að hitta fólk sem maður hefur ekki hitt lengi og endurnýja kynnin, það eru góðar minningar.

Hefur skapast hefð í tengslum við eitthvað sem þú gerir á Ljósanótt, eitthvað sem þú gerir alltaf?

Ég er alltaf dugleg að skreyta með ljósum jafnt úti sem inni og lýsa upp þessa helgi og svo áfram inn í haustið. Það er líka orðinn fastur liður að fara á opnun sýninganna á fimmtudagskvöldinu en aðallega er það samveran með fjölskyldu og vinum.