Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ólýsanlega góð tilfinning að vera amma
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 5. janúar 2020 kl. 04:34

Ólýsanlega góð tilfinning að vera amma

Sigríður Pálína Arnardóttir svaraði nokkrum spurningum frá Víkurfréttum um áramótin.

Hvað stendur upp úr í einkalífi þínu á árinu?
Björn, sonur minn, og Dodda Maggý, tengdadóttir mín, eignuðust son á árinu. Það er yndislegt að verða amma, ólýsanlega góð tilfinning. Hann er fallegastur allra og heitir Baldur Ómi. Ég er mjög hamingjusöm. Það sem stendur líka upp úr eru allar samverustundirnar sem ég hef átt með börnunum mínum, við vinnum mikið saman og samverustundirnar með fjölskyldunni allri, þær gleðja mig mest.

Fagnaðir þú ákveðnum áfanga eða byrjaðir þú á einhverju nýju 2019?
Já, ég keypti mér árskort í Borgarleikhúsinu, það er svo gaman að fara í leikhús. Það er mikilvægt að njóta lífsins, listin og lestur góðra bóka gefur manni mikið.

Hver fannst þér stóra fréttin á landsvísu?
Þegar vinur minn, Sveinbjörn Gizurarson, prófessor við Háskóla Íslands, fékk samþykkt í Bandaríkjunum nýtt lyf við bráðameðferð við flogaveiki. Lyfið heitir Nayzilam og er nefúði, notað við bráðaflogum eða raðflogum og eykur lífsgæði þeirra sem að glíma við flogaveiki. Þetta er árangur rannsókna hans sem hann byrjaði á fyrir 30 árum síðar. Sveinbjörn er héðan úr Njarðvík, þetta er stórkostlegur árangur og við bíðum bara eftir því að fá að selja lyfið hans hér á landi.

Hver fannst þér stóra fréttin í nærumhverfi þínu?
Már Gunnarsson er stóra fréttin og vonin okkar á Suðurnesjum, frábær fyrirmynd í alla staði. Hann sýnir hvað hægt gera ef að viljinn er fyrir hendi. Hann er hæfileikaríkur listamaður og Íþróttamaður ársins. Ólympíumeistari í sundi. Tónleikaranir sem hann hélt í Hljómahöllinni á árinu voru stórkostlegir, diskurinn með tónlistinni hans er yndislegur, ég hef hann í bílnum hjá mér hlusta á hann alla daga.

Hvað borðaðir þú um áramótin?
Ég er vön að borða heit svið um áramótin með rófustöppu. Það var engin undatekning í ár. Ég fæ alltaf vatn í munninn við tilhugsunina.

Eru einhverjar áramóta-/nýárshefðir hjá þér?
Vera saman með fjölskyldunni, fara á brennu og horfa saman á áramótaskaupið, skjóta síðan upp flugeldum sem keyptir hafa verið hjá Björgunarsveitinni. Fagna og gleðjast saman með fjölskyldunni.

Strengir þú áramótaheit?
Ekki eiginlega en þó lætur maður hugann reika, lítur um öxl og hugsar svo um komandi ár. Nú er ég til dæmis alveg ákveðin í því að dekra við sjálfa mig, hreyfa mig, kaupa kort í Massa, stunda jóga og fara reglulega í sund. Vera duleg að fara á skíði þá daga sem leyfa og fara á hestbak, fara í útreiðatúra á Mánagrundinni með félögunum þar. Það er mikilvægt að njóta lífsins með gleði í hjarta og með virðingu fyrir umhverfinu. Ég ætla að hafa það að leiðarljósi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024