Öll orðin meistarar í að haga seglum eftir vindi
Hilmar Egill, skólastjóri í Vogum, mælir með því að enda góða dagsferð á Papas í Grindavík.
Hilmar Egill Sveinbjörnsson, skólastjóri Stóru-Vogaskóla, segir tilfinninguna fyrir haustinu og komandi vetri vera góða. „Það eru mörg krefjandi verkefni framundan en ég held að við öll sem komum að skólastarfi séum orðin meistarar í að haga seglum eftir vindi hverju sinni. Ég hlakka til vetrarins og veit að við tökumst á við hann af æðruleysi,“ segir Hilmar í samtali við Víkurfréttir.
Hver eru stærstu málin í þínum skóla um þessar mundir?
„Vellíðan nemenda og starfsmanna sem eru búin að fara í gegnum tvo erfiða Covid-vetur. Ég vona svo hjartanlega að við getum haldið skólastarfinu sem eðlilegustu þetta skólaárið.“
Hvernig varðir þú sumarfríinu?
„Eins og fleiri sem búa á SV-horninu varði ég sumrinu á Austurlandi. Átti indæla daga á tjaldsvæðinu í Atlavík og naut alls þess besta sem þessi landshluti hefur upp á að bjóða.“
Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
„Þegar vinir mínir frá Costa Rica-árunum boðuðu óvænt komu sína til Íslands og við áttum frábærar stundir eftir að hafa ekki sést í sautján ár.“
Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?
„Mér finnst þetta land svo stórkostlegt til ferðalaga að ég á erfitt með að gera upp á milli – en ef ég á að nefna einhvern uppáhaldslandshluta þá eru það Vestfirðir.“
Víkurfréttum lék forvitin á að vita hvernig Hilmar Egill myndi skipuleggja góða dagsferð með gesti á Suðurnesjum. Hann sagðist að sjálfsögðu byrja á stuttu rölti í Vogunum.
„Því næst færi ég á Garðskaga, Stafnes, Hafnir, Reykjanestá og Grindavík með öllum þeim flottu stoppum sem eru á leiðinni. Ég tæki með nesti fyrir hádegismatinn og endaði svo í mat hjá honum Þormari vini mínum á Papas í Grindavík, enda frábær staður fyrir svanga ferðalanga.“