Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Olíufélagið ESSO heiðrar starfsmenn Aðalstöðvarinnar í Reykjanesbæ
Þriðjudagur 4. mars 2003 kl. 18:02

Olíufélagið ESSO heiðrar starfsmenn Aðalstöðvarinnar í Reykjanesbæ

Aðalstöðin í Reykjanesbæ er þjónustustöð ársins 2002 hjá Olíufélaginu ESSO. Þetta var tilkynnt á árshátíð starfsmannafélags Olíufélagsins sl. laugardagskvöld, 22. febrúar, þar sem jafnframt var fagnað fimmtugsafmæli félagsins. Hjörleifur Jakobsson, forstjóri, og Bergþóra Þorkelsdóttir deildarstjóri rekstrardeildar Olíufélagsins, kölluðu starfsfólk Aðalstöðvarinnar, með Tryggva R. Guðmundsson, stöðvarstjóra, í broddi fylkingar, á svið Broadway og afhentu því glæsilega styttu í viðurkenningarskyni.Aðalstöðin var um árabil með umboð fyrir Olíufélagið en 1. maí 2002 tók félagið við rekstrinum. Flestir starfsmennirnir réðu sig til starfa hjá nýjum eiganda og hafa skilað miklu og góðu starfi.

,,Við könnum markvisst þjónustu ESSO-stöðvanna með því að senda fulltrúa okkar til að kaupa þar vöru og þjónustu án þess að starfsfólk viti að viðkomandi viðskiptavinur sé í raun ,,dulbúinn” sendiboði Olíufélagsins! Aðalstöðin hefur alltaf komið áberandi vel út úr svona þjónustukönnunum og gjarnan lent í fyrsta sæti eða mjög nálægt toppnum,” segir Bergþóra. ,,Þjónustukönnuðir okkar gefa Aðalstöðinni þá einkunn að þangað sé mjög gott að koma, þægilegt og kurteist starfsfólk og heimilislegt andrúmsloft. Stjórnendur Olíufélagsins telja auk þess að Aðalstöðvarfólkið hafi unnið að breytingum í rekstri með glæsibrag og sýnt bæði frumkvæði og áræðni. Það er því vel að viðurkenningunni komið.”


Myndin: Á myndinni eru frá vinstri: Hjörleifur Jakobsson forstjóri Olíufélagsins, Auður, Jóhanna, Hildur, Begga, Hanna Dís, Anna, Jóhann, Sigurður, Arnar, Ísak og Bergþóra
Þorkelsdóttir, deildarstjóri rekstrardeildar Olíufélagsins. Fyrir framan stendur Tryggvi R. Guðmundsson, stöðvarstjóri Aðalstöðvarinnar, með styttuna góðu sem fylgdi sæmdarheitinu þjónustustöð ársins 2002.

Ljósmynd: Hreinn Magnússon
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024