Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Föstudagur 22. október 1999 kl. 00:00

ÓLAFUR BJÖRNSSON SKRIFAR: ENN UM SÖGU KEFLAVÍKUR

Í VF. þann 23 sep. sl. .fjallaði ég lítillega um þriðja bindi Sögu Keflavíkur. Í síðasta blaði VF. svarar Björn Stefánsson þessum skrifum mínum, en hann er einn fulltrúinn í sögunefnd.  Björn segir ; „að  23. sept. hafi birzt fyrstu athugasemdir við söguritunina. Bæjarstjórn höfðu borizt athugasemdir frá sama manni nokkru áður en bókin kom út og fór í sölu”. Björn þarf ekki að vera með neinn tepruskap, honum var alveg óhætt að nafngreina mig. Ég ætla að Birni sé vel kunnugt hvernig ég eignaðist bókina, það er því algjör óþarfi fyrir hann að gefa í skyn að ég hafi komist yfir bókina með dularfullum hætti, jafnvel stolið henni.  Ég skammast mín ekki fyrir að reyna að koma í veg fyrir að bókinni yrði dreift eins og hún er, enda er komið á daginn að Sögunefndin er byrjuð að senda út leiðréttingar í formi „límmiða“, sem nú á að afhenda með bókinni. Betra hefði nú verið að hlusta á athugasemdir mínar og lagfæra það versta strax og láta það fylgja bókinni, ekki sízt þar sem að fyrir lá að endurpakka þurfti öllu upplaginu. Miðarnir eru að vísu viðleitni til úrbóta, en ekki duga þeir til þess að leiðrétta alla textana við myndirnar, svo betur má ef duga skal. Næst mættu límmiðar vera í blokkarformi, það væri mikið handhægara fyrir kaupendur.  Eins og fram kom í fyrri grein minni er mér vel ljóst að vandi er að velja og hafna í rit sem þetta, en sumt ætti þó ekki að orka tvímælis. Að umorða upplýsingar úr heimildum er vægast sagt varasamt. Björn segir að í ljós hafi komið að ekki hafi fyllilega verið hægt að treysta öllum upplýsingum , sem ritstjóri hafi fengið og nefnir dæmi, mér ætlað. Ég er haldinn þeirri & áráttu að hafa gaman af að setja ýmislegt já blað, meðal annars hefi ég látið frá mér fara dálítið um Keflavík eins og ég man hana í bernsku Á nokkrum stöðum í Sögu Keflavíkur er notast við þessa punkta mína, m.a. þar sem ég fjalla um mjólkurílátin. Þar segi ég um Vatnsnesbúið : „Þar var mjólkin sett í brúsa hvers og eins, sem vinnumaðurinn fór með til Ágústu Sigurðardóttir á Hafnargötu 51, ýmist á handvagni eða í hjólbörum. Þangað sótti svo hver sinn brúsa og skildi tóman eftir til næsta dags.“ Í Sögu Keflavíkur bls. 227  útleggst frásögn mín svo: „Neyzlumjólk frá Vatnsnesi var seld til kauptúnsbúa hjá Ágústu Sigurðardóttur....“  Björn segir um ótraustar heimildir : „Má þar til að mynda taka lítið dæmi, að sagt er í kaflanum um mjólkursölumál bls. 227, að neyzlumjólk frá Vatnsnesi hafi verið seld hjá Ágústu Sigurðardóttir að Hafnargötu 51. Þetta er rangt því Ágústa seldi aldrei mjólk.“ Já, það er rangt í bókinni. Björn telur þetta „lítið dæmi“,  en það skyldi nú ekki vera dæmigert um meðhöndlun á heimildum í Sögu Keflavíkur í fleiri tilfellum, sem vega þyngra en það hvort hún Ágústa, blessunin, seldi eða afhenti mjólkina, sem hún gerði. Það var ekki alveg rétt hjá mér að ekki sé minnzt á Olíusamlag Keflavíkur, sagt er frá því að það hafi verið stofnað og að það hafi reist „olíugeymi“ 1938. Birt er mynd af fyrstu afgreiðslu samlagsins og olíutanknum, að vísu segir textinn ekki af hverju myndin er,  en það má nú laga með einum límmiða. Ekki er farið frekar út í né minnzt á eitt merkilegasta framtak útgerðarmanna á þessu tímabili. Í grein sinni segir Björn að deila megi um hvort nóg sé sagt. Það má nú segja að hver hefur sitt mat og sinn smekk.  Þessi smekkur kemur víða fram í bókinni. Ég saknaði þess í fyrri grein minni að ekki er þar minnzt á störf Framnessystra að bindindismálum, þótt talsvert sé fjallað um stúkumál. Björn segir : „hann kvartar yfir að ekki sé minnzt á Jónínu á Framnesi.....“  og svo ; „Vissulega unnu þær systur gott starf, þó ekki hafi nú öll börn orðið bindindismenn til frambúðar“, segir Björn í grein sinni, vitnar svo til þess að þeirra systra, Guðlaugar og Jónu sé getið í öðru bindi bókarinnar. Rétt er það, þar er þeirra getið þar sem fjallað er um endurreisn barnastúkunnar Nýársstjörnunnar 1919.  Klausan hefst svo. „Varla verður undan því vikizt að geta þáttar þeirra Guðlaugar og Jónínu Guðjónsdætra á Framnesi  Þær voru báðar meðal stofnenda og var Guðlaug kosin æðstitemplar, 13 ára gömul.“ Ég skil svar Björns svo, að vel hafi mátt víkjast undan að nefna þær systur í bók sem tekur yfir tímabilið 1920 til 1949. Útvegið ykkur bara aðra bókina.  Björn afgreiðir líka „kvörtun“ mína um að Sparisjóðnum séu lítil skil gerð, með því að vísa í annað bindið. Ekki sætti ég mig við það að árin, sem bókin á að fjalla um sé það eitt merkilegt um Sparisjóðinn sagt, að hann tapaði einhverju þegar kreppan var í hámarki, eins og flestar eða allar lánastofnanir. Getur þetta stafað af lítillæti Björns, faðir hans, sómamaðurinn, Stefán Björnsson var sparisjóðsstjóri frá 1934 til 1944 og skilaði þá af sér góðu búi. Hann var líklega almennt bezt látinn af þeim sem starfinu gengdu á því tímabili, sem um er fjallað. Hans vegna var því vel óhætt að gera Sparisjóðnum betri skil. Undir lok greinar sinnar getur Björn þess að „það sé vissulega mikilvægt að fyrir sögunefnd að fá fram athugasemdir og gagnrýni“. Að þessu athuguðu vil ég bæta örlitlu við það sem þegar er komið og vænti að fleiri hjálpi upp á hjá ykkur. Á bls.156, segir : „Meðal helztu vélbátaútgerðarmanna á 4. áratugnum voru; „Miðað við þá sem upp eru taldir verður varla umdeilt að þar vantar t.d. Ólaf S. Lárusson og þá Garðshornsbræður Eyjólf og Jón Eyjólfssyni og að sjálfsögðu hann Jóhann á Vatnsnesi, hvernig gat hann gleymzt, væntanlega voruð þið mest á „kontornum“ hans við að koma bókinni saman . Leiðréttingar á nafnarugli ofl. læt ég bíða um sinn. Að lokum þakka ég ábendingu um að vanda þurfi yfirlestur prófarka, slíkt verður aldrei nógsamlega brýnt fyrir greinahöfundum og jafnvel söguriturum. Ólafur Björnsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024