Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Okkar mottó er að búa til  tvær krónur úr einni
Ási með fulltrúum styrkþegar á Skötumessunni í ár. VF/sigurbjörn daði.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 25. ágúst 2024 kl. 06:06

Okkar mottó er að búa til tvær krónur úr einni

Fullt hús í Garðinum á Skötumessu sem styður við bakið á þeim sem minna mega sín. „Gaman hve vel hefur tekist í gegnum tíðina,“ segir Ásmundur Friðriksson

„Þetta er sautjánda eða átjánda skiptið sem Skötumessan fer fram, við fyllum brátt annan tuginn, þetta hafa verið gjöful ár,“ segir alþingismaðurinn Ásmundur Friðriksson, sem stóð fyrir hinni árlegu Skötumessu í Gerðaskóla í Garðinum miðvikudaginn 17. júlí ásamt sínu fólki. Allur ágóði rennur í þörf og góð málefni og skemmti fólk sér hið besta og héldu allir pakksaddir heim eftir skötu- og saltfiskát en annar matur var líka á boðstólnum.

Skötumessa í Garði tók við af Ísfirðingum má segja, sem héldu Þorláksmessu hátíðlega að sumri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég og Guðjón Sigurðsson, formaður MND-samtakanna, tókum við keflinu og okkur hefur vaxið fiskur um hrygg allar götur síðan má segja. Við byrjuðum með litla skötumessu heima hjá okkur þegar við bjuggum í Keflavík en þegar ég tók við sem bæjarstjóri í Garðinum árið 2009, höfum við haldið þetta þar síðan þá og það má segja að búið sé að vera uppselt hjá okkur undanfarin ár, færri komast að en vilja. Við Theodór og Þórarinn Guðbergssynir ásamt eiginkonum okkar og Guðlaugi Helga Sigurjónssyni, höfum séð um Skötumessuna en nú hefur Teddi kvatt okkur og við söknum hans. Við keflinu taka Gunnrún dóttir Tedda, Ævar Ingi bróðir hans, Svava og Sveinn Ingi. Allt úrvalsfólk.

Eins og stór fjölskylda

Þetta eru um 500 manns sem mæta á hverju ári og það má segja að þetta sé orðið eins og ein stór fjölskylda, þetta eru mest sömu andlitin ár eftir ár og það er bara yndislegt. Skemmtiatriðin koma bæði heiman úr héraði og líka utan, t.d. kom sönghópurinn Gleym mér ei, það er Ólafur vinur minn frá Eyjum og dætur hans auk undirleikara, þau höfðu samband að fyrra bragði og báðu um að fá að vera með og það eina sem þau vildu fá í staðinn var að fá að borða skötu. Allt listafólkið gefur vinnu sína en ef fólk er með ferðakostnað komum við að sjálfsögðu til móts við það. Þetta er ofboðslega gefandi og ég stefni auðvitað á að fylla annan tuginn en svo erum við farin að þjálfa fólk í að taka við af okkur.“

Margir aðilar fengið styrk

Það eru margar milljónir sem safnast ár hvert og má segja að hópurinn tvöföldi þá upphæð sem safnast.

„Það er gaman hversu vel hefur tekist í gegnum tíðina að safna fé og okkar mottó er að búa til tvær krónur úr einni. Við erum búin að útbýta alls kyns styrkjum frá fyrirtækjum og eigum eftir að fá betri afsláttarkjör hjá þeim svo við náum að búa til meiri verðmæti en bara þær krónur sem safnast. Hvernig við útbýtum fjármununum er eftir ýmsum leiðum, bæði hefur fólk samband og við fylgjumst með því sem er í gangi. Veikindi og slys og gerast í öllum stigum þjóðfélagsins og það yljar okkur um hjartarætur að geta stutt við bakið á þeim sem minna mega sín. Við fáum alltaf allt hráefnið án þess að þurfa borga fyrir það, Fiskmarkaður Suðurnesja hefur mörg undanfarin ár séð um kostnaðinn við alla skötuna sem kom frá Fiskbúð Reykjaness að þessu sinni. Brim og Icelandair Cargo styðja alltaf myndarlega við bakið á okkur, plokkfiskinn fáum við frá Axel í Skólamat og kartöflur og rófur komu frá Forsæti í Flóa og frá vinum og vandamönnum í sveitinni. Ég vil þakka samfélaginu fyrir að taka okkur svona vel og hafa stutt við bakið á okkur og ég vil sérstaklega þakka öllum fyrirtækjum og sveitarfélaginu Suðurnesjabæ fyrir stuðninginn. Ég er strax farinn að hlakka til næstu skötumessu,“ sagði Ási að lokum.